Suðuþvottur
Þegar maður kemur dauðþreyttur heim eftir langan dag á maður ekki að gera nokkurn skapaðan hlut annan en að hvíla sig. Ætli maður að vera sniðugur og koma einhverju í verk í slíku ástandi endar það yfirleitt með ósköpum.
Í gærkvöld kom ég heim í steiktum ofþreytufíling og setti í þvottavél. Einum og hálfum tíma síðar áttaði ég mig á því að ég hafði soðið fulla vél af vægþvotti. Bómullin slapp að mestu en eðlileg afföll urðu á peysum úr gerviefnum. Nú á ég nokkrar peysur sem líta út eins og kúbísk listaverk.
Þar sem ég á ekki mikið af fötum og get seint talist tískufrík er þetta tilfinnanlegur missir. Sérstaklega þótti mér sorglegt að sjóða nýju fínu rauðu peysuna með stuttu ermunum og kaðlamynstrinu sem litli grís gaf mér í jólagjöf. Það er dagljóst að ég þarf að skreppa í tískuvöruverslanir Hjálpræðishersins og Rauða krossins þegar ég kem suður næst.
Héðan í frá ætla ég aldrei að setja í þvottavél nema ég sé sérstaklega vel upplögð. Eða ganga bara í bómull það sem eftir er.
Víóluskrímslið - soðið, ekki steikt
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli