Illgirni og almenn mannvonska

mánudagur, apríl 17, 2006

Árið sem ég missti trúna

Fjölskylda mín verður seint talin trúrækin. Hingað til hefur kirkjusókn innan hennar falist í skírnum, brúðkaupum og jarðarförum auk þess að hafa kveikt á útvarpsmessunni á meðan menn spæna í sig jólalambið. Þetta ræktarleysi við almættið í uppeldi mínu kom þó ekki í veg fyrir það að ég trúði heitt á Guð sem lítið barn. Ég sótti sunnudagaskóla af mikilli natni, afskiptalaust af hálfu foreldra minna sem fannst ágætt að við systurnar hefðum eitthvað að gera á sunnudagsmorgnum fyrst við vorum ekki með Stöð 2.

Við Guð vorum ágætis félagar á þessum tíma. Ég bað bænirnar mínar samviskusamlega og signdi alla bangsana í barnaherberginu áður en ég fór að sofa. Í sunnudagaskólanum kunni ég öll lögin og söng barna hæst Guði til dýrðar. Faðirvorið gegndi hlutverki möntru sem ég þuldi í belg og biðu ef ég þurfti að labba heim í myrkri eða þegar ímyndunaraflið var að hlaupa með mig í gönur. Það var ágætt að eiga Jesú hinn besta vin barnanna að þegar maður var hræddur eða leiður. Verst að bænirnar , hversu heitar sem þær voru, virtust aldrei ná í gegn um skiptiborð himnanna. Gilti þá einu hvort maður bað um jólasnjó, frið á jörð, bætt efnahagsástand heimilisins eða að Guð tæki af lífi þá sem stríddu mér í skólanum.

Smátt og smátt komst ég að því að Guð gæti ekki verið bæði almáttugur og algóður, því væri hann það væri ekki svona mikið um óréttlæti í heiminum. Í leit að svörum las ég biblíusögurnar fram og aftur. Sumar voru ágætar, eins og sagan um góða Samverjann. Aðrar voru ekki eins skemmtilegar. Mér fannst til dæmis ekkert sniðugt af Guði að heimta það af Abraham að hann myrti son sinn Guði til ánægju - og segja svo bara allt í plati þegar Abraham reiddi rýtinginn til höggs. Mér fannst sagan um Job einnig afar ógeðfelld. Ég skildi ekkert í Job að hlýða þessum Guði sem að mínu mati hagaði sér eins og óþolandi ofdekraður asni. Boðorðin 10 ollu mér miklum heilabrotum. Afhverju máttu menn ekki eiga aðra Guði? Var til annar Guð sem minn Guð var afbrýðisamur útí eða var hann bara að baktryggja sig? Hvert var málið með að mega ekki girnast nokkuð það sem náungi manns ætti, þar með talið eiginkonu hans? Átti hún sig ekki sjálf? Af hverju var Guð að drepa fólk alltaf hreint? Og hvers vegna þurfti Jesús að deyja fyrir syndir mannanna þegar hann virtist vera hreint ágætis maður og sá eini með viti á svæðinu?

Smátt og smátt byrjaði ég að skapa mínar eigin kenningar um tilvist Guðs. Guð gat vel verið algóður, en hann var alls ekki gallalaus. Ímynd mín af Guði þróaðist út í mynd af eldri manni með sítt skegg sem sat á skýi og fylgdist með heimi sem hann hafði einu sinni skapað í bríaríi án þess að gera sér nokkra grein fyrir því hversu mikið vesen yrði að halda honum við. Manni sem tautaði í skeggið þegar bænir bárust upp til himins og var með móral yfir því að geta ekki svarað þeim öllum - og fengi stundum barnaleg ofsaköst þegar honum þætti lífið vera orðið of erfitt og mennirnir of heimskir. En samt ágætis kall. Jafnvel þó honum þætti gaman að stríða mönnum svona af og til og biðja þá um að myrða börnin sín til þess eins að fá tækifæri til að festa íslenskt fjallalamb í nálægan runna.

Mér datt aldrei í hug að það væri eitthvað að þessari kenningu minni um almættið. Ég stundaði sunnudagaskólann samviskusamlega og á leiðinni þangað veifaði ég til Guðs sem ég var viss um að sæti á skýi beint fyrir ofan Breiðholtið og vinkaði til baka, ánægður með að ég væri á leið í kirkjuna að syngja and-femíníska söngva um að ég vildi líkjast Rut sem var svo sönn og góð, en Daníel fylltur hetjumóð. Það var ekki fyrr en ég átti að fermast sem mér var ljóst að kenning mín var stórgölluð.

Á þeim vetri sem ég gekk til prests, staðráðin í því að fermast og gefa Jesú hjarta mitt, vann hin Lútherska Evangelíska kenning óbætanlegan skaða á minni traustu barnatrú. Ég fékk að vita að Guð væri andi og að vissu leyti væri Jesús það líka og svo væri sá þriðji sem enginn hafði séð en fengi menn reglulega til að tala tungum. Guð væri víst almáttugur og algóður og upphlaup hans væru öll verðskulduð af mönnunum. Ég lærði líka að allar þjáningar mannkyns og ástæðan fyrir því að fjölskylda mín hafði ekki efni á að fara til sólarlanda eins og allt almennilegt fólk væri sú að Eva heitin hefði bitið í girnilegt epli fyrir mörgþúsund árum. En reiðarslagið kom ekki fyrr en mér var tjáð að páfagaukarnir mínir, sem ég hafði kvatt með miklum trega fullviss um að þeirra biði betri staður á himnum en gasklefinn á dýraspítalanum í Víðidal, væru alls ekkert á himnum. Þeir væru hvergi, því dýr hefðu ekki sál.

Þann dag fór ég heim úr fermingarfræðslunni með djúpa sorg í hjarta. Þegar ég svo stóð fyrir framan altarið í Seljakirkju nokkrum vikum síðar til að staðfesta skírnarheitið var ég orðin forhertur trúleysingi.

Við tók tími þar sem ég reifst grimmilega við trúað fólk og slengdi fram sleggjudómum um heimsku þeirra sem trúa. Það geri ég ekki lengur enda hef ég tekið almættið í sátt. Það tók mig nefnilega langan tíma að átta mig á því að kenningar eru jafn fáfengilegar og mennirnir sem semja þær. Í dag er mér slétt sama um trú. Menn mega trúa á það sem þeim sýnist svo lengi sem þeir eru ekki að þröngva því upp á mig eða myrða aðra menn á fölskum forsendum.

Helgidómur hvers manns er innra með honum og í kringum hann. Minn helgidómur er hálendi Íslands á sólbjörtum sumardegi og svanir fljúgandi í austur.


Víóluskrímslið - mannvinur

Engin ummæli: