Illgirni og almenn mannvonska

laugardagur, maí 27, 2006

Sérréttur Harra

Síðastliðið fimmtudagskvöld brá ég mér af bæ og fór á einn vinsælasta næturklúbb Helsinki með Önnu og Matiasi. Þar hlustuðum við á skemmtilega hljómsveit og bárum saman klæðaburð okkar og annarra gesta. Við komum heldur illa út í samanburðinum enda þorri manna á staðnum í flíkum sem kosta meira en mánaðarleg matarinnkaup mín. Ég er enn hissa á að dyraverðirnir skuli hafa hleypt okkur inn í gallabuxum og bómullarbolum.

Eftir tónleikana ákváðum við að fara og fá okkur að borða fyrir svefninn. Þegar Anna og Matias komust að því að ég hafði aldrei farið á finnskt næturgrill vildu þau bæta úr því þá og þegar. Því lögðum við leið okkar til grillsjoppu Harra, Harrin Grilli.

Í finnskum næturgrillsjoppum er um auðugan garð að gresja fyrir þá sem eru hrifnir af brenndum eða örbylgjuhituðum fitugum mat og það var erfitt að velja á milli kræsinganna. Eftir nokkra umhugsun ákváðum við að skella okkur á þrjá skammta af sérrétti Harra, Harrin Parempi. Sérréttur Harra samanstendur af hlemmstóru brauði fylltu með kjötbollu, steiktu eggi, lauk, súrum gúrkum, hálfu salatblaði - og tveimur pylsum - auk eins mikils majóness og manni finnst við eiga. Úr verður heljarinnar loka, enda féllust mér nánast hendur þegar átti að fara að borða herlegheitin.

Fyrstu tveir bitarnir voru afar góðir enda var ég orðin sársvöng. Þriðji bitinn virtist heldur fitugri en þeir fyrstu.Við þann fjórða fannst mér engu líkara en ég fyndi fyrir sérrétti Harra troða sér inn í kransæðarnar. Með herkjum tókst mér að éta rúman helming lokunnar. Restin fór í ruslið sem mér þótti ekki gott enda hef ég aldrei kunnað við að henda mat.

Næst fæ ég mér borgara og franskar.


Víóluskrímslið - parempi

1 ummæli:

Matias Harju sagði...

First of all, that's Harrin Nakki. :) It's a hell of a job trying to understand Icelandic. What is nature grill anyway?