Illgirni og almenn mannvonska

fimmtudagur, maí 25, 2006

Sögulegur viðburður 1

Um síðustu helgi komu pabbi og mamma til mín í heimsókn. Það fannst mér gaman. Þau hafa nefnilega aldrei getað heimsótt mig í útlöndum fyrr en nú.

Að sjálfsögðu gerðum við okkur margt til gamans og ég held ég geti fullyrt að þeim hafi ekki leiðst þessa rúma fjóra daga sem þau stöldruðu við. Meðal annars fórum við á þjóðminjasafnið þar sem við flissuðum að hönnuninni á umbúðunum á finnska þvottaefninu ATOMI sem framleitt var á fimmta áratug síðustu aldar. (Vísbending; sprengiský og gígur)

Auk þess fórum við út í virkið Suomenlinna, út að borða á traktoraveitingastaðnum Zetor, í bæjarferð (þar sem 4 nýjar múmínkönnur bættust í safn heimilisins) og á tónleika. Laugardeginum og fyrrihluta sunnudagsins eyddum við í sumarbústað foreldra Önnu vinkonu minnar þar sem við fórum í alvöru finnska reyksánu, "syntum" í vatninu, fórum í bátsferðir og horfðum á Finnland vinna Eurovision.

Á leiðinni út á flugvöll tókst mér að týna nýju fínu göngustöfunum sem mamma hafði keypt í bæjarferðinni og við pabbi pakkað inn af alkunnri snilld. Það þótti mér leiðinlegt. Þau undur og stórmerki gerðust þó nokkrum dögum síðar að mamma fékk sms frá manni sem fundið hafði pakkann. Ég sótti stafina í gær. Allt er gott sem endar vel.


Sögulegur viðburður 2

Það hefur varla farið fram hjá neinum að Finnar unnu Eurovision í ár. Enda var erfitt að gefa LORDI klisjustig þegar sveitin steig á svið í Aþenu.

Þeir voru ekki

-allsberir
-með fáklædda dansara á sviðinu
-nuddandi sér upp við téða dansara í einni dónalegri stellingu
-falskir svo skar í eyrun
-í hvítu

Lagið var ekki

-júropopp
-Shakirukóver
-óeftirminnilegt
-með hækkun

...og fjallaði ekki um ást. Sem mér fannst það allra besta. Lordi eru vel að sigrinum komnir. Evrópa hefur kveðið upp sinn dóm! Út með vælið og allsberu stelpurnar! Inná með rokkið og latexið!


Víóluskrímslið - hipp og kúl

Engin ummæli: