Illgirni og almenn mannvonska

miðvikudagur, maí 10, 2006

B.O.B.A

Vorið lét bíða eftir sér hér í Helsinki en þegar það loksins kom, kom það með stæl. Fyrir tíu dögum síðan voru ekki komin nein lauf á trén. Nú er allt orðið grænt og sólin skín allan daginn og langt fram á kvöld. Íkornar og kanínur vappa um í garðinum fyrir utan fermetrana 44 og mávarnir syngja fagran eggjaþjófasöng. Sannkölluð bomba. B.O.B.A.

Í kvöld hélt bekkurinn minn tónleika í hátíðarsal skólans og tókst öllum vel upp. Sjálf spilaði ég sólósónötu Hindemiths op. 25, sagaði víóluna næstum því í sundur í 4.kafla (rasendes Zeitmass, wild, Tonschönheit Nebensache) og hlaut hrós fyrir. Eftir tónleikana héldu bekkjarbræður mínir á barinn. Ekki ég. Í fyrramálið þarf ég að mæta snemma í skólann og kljást við 5. sinfóníu Mahlers. Mér finnst Mahler rosalega fyndinn. Hvaða annað tónskáld skrifar út nákvæm 32parta hlaup í brjálæðislegu tempói með alls konar fingurbrjótum og aukaformerkjum - og skrifar svo glissando ofan við herlegheitin? Ertu að gera grína að mér, Gústaf?

(Gústaf svarar ekki enda löngu dauður)

Í næstu viku mun draga til tíðinda því þá koma pabbi og mamma í heimsókn. Þetta verður í fyrsta sinn sem þau heimsækja mig í útlegðinni. Nú bý ég svo vel að geta boðið þeim gistingu þar eð ég fattaði um daginn að sófinn í stofunni (sem ég hef setið í í fjóra mánuði og ryksugað reglulega) er svefnsófi. Það kom skemmtilega á óvart. Nú vona ég bara að veðrið haldist gott. Annars förum við bara á þjóðminjasafnið.


Víóluskrímslið - allt að gerast

Engin ummæli: