Illgirni og almenn mannvonska

miðvikudagur, maí 17, 2006

Fótógen

Systir mín er fótógen. Enda var hún fyrirsæta um skeið, eða alveg þar til einhver skipaði henni að hætta að borða nammi. Hún hætti í módelbransanum. Skynsamleg ákvörðun það.

Ég er ekki fótógen. Af öllum þeim þúsundum mynda sem teknar hafa verið af mér á lífsleiðinni eru aðeins nokkrar þess virði að líta megi á þær oftar en einu sinni. Þegar ég var nýfædd var ég svo rangeyg að ég leit út eins og geimvera á myndum. Sem krakki þjáðist ég af reflex sem olli því að ég gat ekki brosað framan í myndavél án þess að reka út úr mér tunguna um leið. Það eltist sem betur fer af mér.

Skólamyndirnar, fermingarmyndirnar, jafnvel stúdentsmyndirnar bera þess merki að mér líður herfilega fyrir framan myndavélar. Ég reyni mitt besta til að brosa og horfa björtum augum í myndavélina - en á einhvern óútskýranlegan hátt kemur það aldrei fram á pappírnum. Það finnst mér mikil synd enda finnst mér ég voða sæt, sérstaklega þegar ég hef munað eftir því að greiða mér og pússa gleraugun.

Í dag sannaðist það enn sem fyrr að ég er ekki fótógen. Ég fór í passamyndakassa á járnbrautarstöðinni - rétti úr mér fyrir framan myndavélina, brosti mikilvæga sjálfsörugga brosinu mínu og gætti þess að vera ekki með lokuð augun - og beið eftir smellunum fjórum. Þegar myndirnar runnu út úr vélinni sá ég að ég leit út eins og Ástþór Magnússon á þeim öllum. Hvers vegna er ég að þessu.


Víóluskrímslið - náttúrulega gott

Engin ummæli: