Kveikjum eld
Í gær tók einhver sig til og kveikti í gömlu vöruskemmunum við járnbrautarstöðina í Helsinki. Undanfarið hefur staðið heilmikill styrr um þessi hús enda stóð til að rífa þau til að rýma fyrir
nýju tónlistarhúsi. Finna vantar nefnilega almennilegt tónlistarhús. Eins og fleiri.
Í síðasta mánuði voru húsin rýmd. Síðan þá hefur löggan verið með stöðuga vakt við pleisið. Á Valborgarmessu, aðfaranótt 1. maí, tók hópur manna sig til og safnaði saman í myndarlega brennu við eina skemmuna. Sjálf sá ég bálið ekki enda var ég upptekin við að týna ekki stúdentshúfunni minni á þeirri stundu. Aðstandendum brennunnar hafði að vísu láðst að fá leyfi fyrir herlegheitunum. Þar sem menn létu auk þess heldur ófriðlega var víkingasveitin send á staðinn. Bömmer fyrir þá sem voru á bakvakt.
Í gær ákvað svo einhver að klára dæmið og gekk rösklega til verks. Eftir því sem ég best veit labbaði brennuvargurinn sig inn á svæðið um miðjan dag og kveikti í. Úr varð svakalegt bál sem breiddist hratt út í allar skemmurnar á svæðinu. Reykský lagðist yfir miðbæinn og allar samgöngur um Mannerheimintie,eina aðalumferðargötu Helsinki, stöðvuðust. Í gærkvöldi var sérdeilis gott veður, hlýtt og milt. Þar af leiðandi myndaðist sannkölluð áramótastemmning þar sem menn flykktust að tröppunum við þinghúsið og fylgðust með slökkviliðinu að störfum með öl í hönd.
Þegar ég átti leið hjá seint um kvöld logaði enn glatt í vöruskemmunum. Það er hætt við að lítið sé eftir af þeim núna.
Víóluskrímslið - skúbb
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli