Forréttindi
Það eru forréttindi að vera Íslendingur í Finnlandi. Í dag tók gjaldkerinn í bankanum það upp hjá sjálfri sér að kenna mér að borga reikninga í hraðbankanum (á finnsku) svo ég þurfi ekki framar að greiða færslugjöld við slík tækifæri. Þegar ég þakkaði henni liðlegheitin svaraði hún því til að einu sinni þegar hún var lítil hafi hún átt íslenska pennavinkonu og að ég minnti á hana. Magnað.
Eurovision
Þeir sem halda að Íslendingar séu einir þjóða um að gefa skít í Eurovision í ár ættu að líta á framlag Finnlands til sömu keppni í ár.
Brúðkaupsþátturinn í Samalandi
Finnar eru eins og Íslendingar "framarlega" í gerð alls kyns raunveruleikasjónvarps. Þeir eru m.a með barþjónakeppni í beinni, hið sívinsæla fótboltalið FC Nördit (FC Nördar) og að sjálfsögðu brúðkaupsþátt á sínum snærum.
Í brúðkaupsþætti kvöldsins var sýnt frá heljarinnar brúðkaupi norður í Samalandi þar sem 31 eins árs hreindýrabóndi og einstæð móðir gekk í það heilaga með 19 ára skógarhöggsmanni. Skötuhjúin keyptu hringana í póstkröfu, létu ömmu brúðarinnar sauma á sig nýja þjóðbúninga og buðu svo upp á hreindýrasteik, öl og karaoke í tjaldi á skólalóð þorpsins. Gleðin var ósvikin.
Víóluskrímslið - Nörd
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli