Illgirni og almenn mannvonska

sunnudagur, mars 12, 2006

Framtíðarsýn

Á mannamótum þar sem samankomnir eru Íslendingar búsettir í útlöndum verður mönnum oft tíðrætt um ástand þjóðmála á Íslandi. Sem von er. Íslendingar sem dvalist hafa lengi erlendis sjá Ísland oft í hillingum. Þeir Íslendingar sem fylgjast með fréttum að heiman eru þó yfirleitt fljótir að losna við þá draumsýn.

Það sem af er minni dvöl fjarri heimahögum held ég að ég hafi aldrei tekið þátt í jákvæðum samræðum um það efni. Menn virðast yfirleitt sammála um að allt sé að fara til fjandans á Íslandi. Ungt fólk hugsar til þess með hryllingi að flytja heim í brjálæðislegt neyslukapphlaupið að námi loknu á meðan þeir sem eldri eru gráta týnt sakleysi fjallkonunnar. Menn velta fyrir sér forgangsröðun íslenskra stjórnvalda í heilbrigðis og menntamálum, auðsöfnun og græðgi í viðskiptalífinu, skuldasöfnun almennings og eilífu stressinu sem virðist vera að drepa allt og alla. Oft finnst mönnum það að fara heim í frí eins og að sogast inn í geðveikislega hringiðu sem sýgur úr manni allan mátt. Nýjustu fréttir að heiman eru oft gerðar að umtalsefni. Síðustu fréttir af fyrirhuguðu álmusteri í Eyjafirði og mögulegri einkavæðingu vatnsveitu á Íslandi hleyptu illu blóði í marga, þar á meðal mig. Gengisfelling krónunnar stefnir í að kosta marga fátæka námsmenn sem fá námslán sín greidd í íslenskum krónum stórfé. Þær fréttir urðu heldur ekki til þess að gleðja marga.

Íslendingar sem lengi hafa dvalist erlendis lýsa einkavæðingarfylleríinu á Íslandi sem svo að Íslendingar reyni aldrei neitt nema það hafi örugglega mistekist annars staðar.

Samt þykir mönnum vænt um landið sitt. Þeir gæta þess að tala fallega íslensku og tala um sögu Íslands og náttúru þess af miklu stolti. Það er kannski þess vegna sem svartsýnin heltekur þá þegar rætt er um íslensk þjóðmál. Landið sjálft er nefnilega stórkostlegt. Það eru íslensk stjórnvöld sem eru að fara með það til fjandans.

Ég er ekki ofbeldishneigð manneskja að eðlisfari. Ríkisstjórn Íslands og aðrir ráðamenn mega prísa sig sæla fyrir það. Ég myndi nefnilega brenna mun fleira en fána kæmist ég í tæri við það fólk sem er að skemma framtíðina fyrir mér, börnum mínum og barnabörnum. Ekki vegna þess að það myndi breyta nokkrum sköpuðum hlut.

Mér myndi bara líða miklu betur á eftir.


Víóluskrímslið - bálreitt

Engin ummæli: