Illgirni og almenn mannvonska

laugardagur, mars 11, 2006

Bekkjarbræður mínir

Í gær hélt kennarinn minn hóptíma fyrir bekkinn sinn. Við mættum sex og spiluðum hvert fyrir annað. Það gekk ágætlega, ekki síst eftir að versti glímuskjálftinn var farinn.

Eftir tímann fengu allir þá hugmynd samtímis að fara á hverfiskrána Meritahti og fá okkur einn öl. Það gerðum við. Eftir skamma stund voru allir komnir í mikið stuð. Sérstaklega bekkjarbræður mínir.

Um ellefuleytið tóku allar stelpurnar nema ég þá skynsamlegu ákvörðun að tygja sig heim enda sporvagninn nánast hættur að ganga. Ég ákvað hins vegar að verða eftir með piltunum. Eftir því sem leið á kvöldið og bjórunum fjölgaði urðu samræðurnar sífellt súrrealískari. Við veltum fyrir okkur mikilvægum hlutum eins og hvers vegna fólk af suðrænum slóðum er loðnara en fólk af norrænum uppruna, hvort hægt sé að búa til mannalýsi, hvort allir Svíar væru með hring í hægra eyra, hvers vegna finnsk júróvisjónlög enda alltaf í síðasta sæti og hvort nauðsynlegra sé að geta séð á sér tærnar eða kynfærin yfir ístruna.

Eftir miðnætti skiptu piltarnir yfir í viskí. Þá ákvað ég að fara heim.

Þeir kvöddu mig með miklum tilþrifum og sögðust hlakka til næsta hóptíma. Ég líka. Þetta eru öndvegispiltar.

Víóluskrímslið - andleg auðgun

Engin ummæli: