Kartöflur
Fyrir nokkrum vikum vorum við dr. Tót að taka til í eldhúsinu. Ég var hálf inni í skáp að leita að týndum potti þegar dr. Tót fann kartöfluútsæðið sem ég var búin að fela vandlega í dimma horninu við hliðina á ísskápnum. Dr. Tót fannst vel spírað og lint kartöfluútsæðið viðbjóðslegt og heimtaði að fleygja því. Það var að sjálfsögðu ekki gert enda bað ég kartöflunum griða á þeim forsendum að um háþróaða tilraun væri að ræða. Vísindaleg rök virka iðulega við slíkar aðstæður.
Í dag gerðum við pabbi okkur ferð austur á ættaróðalið þar sem við stungum upp lítið beð, blönduðum það illa fengnum sandi og muldum í það þurrt hrossatað í blíðunni. Þegar okkur þótti nóg að gert settum við kartöflurnar niður og hlúðum ástúðlega að brothættum spírunum í moldinni. Að lokum vökvuðum við beðið með nýrunnu lindarvatni.
Nú bíð ég spennt eftir fyrstu grösunum. Heppnist þessi hávísindalega tilraun mín bætum við rófum við næst.
Víóluskrímslið - ár kartöflunnar
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli