Kynslóðabilið
Þeir sem hafa yndi af sundi vita vel að best er að fara að synda upp úr hálf ellefu á morgnana. Þá eru laugarnar hálftómar enda hádegistraffíkin ekki hafin og fastagestirnir yfirleitt farnir.
Þá er dýrlegt að eiga heila braut útaf fyrir sig og geta synt baksund án þess að hafa áhyggjur af því að vera fyrir einhverjum - eða, eins og stundum gerist, berja einhvern í rassinn því maður sér hann ekki.
Í gær gerði ég mér ferð í Laugardalslaug eins og oft áður. Þrátt fyrir að aðstaðan þar megi muna sinn fífil fegri þykir mér best að synda í 50 metra laug og hana er þar að finna. Í gær fór ég í sund á uppáhaldstímanum mínum og þegar ég lauk við að synda fór ég í nuddpottinn - sem virkaði í gær mér til mikillar gleði.
Nuddpotturinn var fullur af vel snyrtum frúm um sextugt. Þarna voru á ferð fulltrúar þjóðfélagshóps sem sést varla lengur á Íslandi, konum úr vel stæðum fjölskyldum sem voru aldar upp með það að markmiði að giftast vel og eignast snyrtileg og vel greidd börn. Umræðurnar báru vitni um heim sem er flestum lokaður, þar á meðal mér. Ein af annarri báru þær sig illa yfir viðhaldi og þrifum á heljarstóru einbýlishúsi, garðavinnu og limgerðaklippingum. Einnig fylgdi sögunni að ómögulegt væri að fá iðnaðarmenn á sumrin til sumarhúsabygginga og næðist í þá mættu þeir iðulega bæði seint og illa. Allar kvörtuðu þær yfir vinnuálagi á eiginmönnum sínum og því að þeir sæjust varla heima. Ein og ein lumaði á krassandi kjaftasögu um skilnað vinkonu sem ekki var mætt í pottinn. Mælt var með snyrtistofum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og því að versla í Hagkaup frekar en Bónus því þar væru færri Pólverjar á kassanum.
Ég sat þarna þögul og lét vatnið bylja á aumum víóluleikaraöxlum á meðan þær létu dæluna ganga og hugsaði með mér að þökk sé kvennabaráttunni mun ég hafa margt annað að spjalla um í heitapottinum þegar ég verð sextug. Ég kemst ekki hjá því að finnast ég vera afar heppin manneskja.
Víóluskrímslið - áfram stelpur
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli