Grand Theft Auto
Ég er ein þeirra sem þrjóskast við að aka um á löglegum hraða. Fyrir því eru nokkrar vel ígrundaðar ástæður.
1) Hraðakstur er ólöglegur. Ég hef hvorki efni á né löngun til að borga tugþúsundir króna í hraðasektir né missa prófið fari svo að löggan standi mig að verki.
2) Íslenskir vegir eru ekki byggðir fyrir hraðakstur. Dettur einhverjum í hug að bera saman þjóðveg 1 þar sem ekki einu sinni er búið að malbika hringinn og þýska autobana? Ekki mér.
3)Ég vil eiga betri séns á að bregðast við óvæntum uppákomum á veginum. Það er auðveldara á 90 km/klst en 140 km/klst.
4)Litli Rauður myndi springa í loft upp ef ég reyndi að þenja hann mikið yfir hundraðið.
Ég er tillitsamur ökumaður, ek hægra megin, gef alltaf stefnuljós og hleypi framúr mér hvenær sem tækifæri gefst til. Þannig tryggi ég að kransæðastíflaður forstjóri á fínum jeppa fari ekki á límingunum yfir því að þurfa að keyra á eftir Litla Rauð, of seinn sendibílstjóri komist í verkefni aðeins 20 mínútum of seint í stað 23 og að verkefnum hlaðin ofurkona komist að ná í krakkana í skólann áður en mætt er í ræktina, hráfæðisnámskeiðið og sjálfstyrkingarfélagskapinn. Opinberir eðalvagnar með blikkandi ljós fá sjálfsagðan forgang.
Þrátt fyrir þessa tillitsemi mína kemur það fyrir að erfitt er að hleypa bílum framúr sér. Bregða þá margir á það ráð að keyra svo fast upp að rassgatinu á Litla Rauð að maður sér augnlit viðkomandi ökumanns í baksýnisspeglinum. Með þessu móti vilja þeir fá mig til þess að aka hraðar. Auðvitað reyni ég að kom til móts við þetta fólk enda myndi ég valda þeim óbætanlegum andlegum skaða ef ég gerði það ekki. Að aka 10 km yfir hámarkshraða virðist oftast veita nokkra fróun og fegnir eru menn þeirri stund þegar mér tekst loks að hleypa þeim fram úr mér. Það hefur þó ósjaldan komið fyrir að sá fögnuður breytist í gremju, einkum ef löggan bíður hinum megin við hæð eða beygju.
Ég velti því oft fyrir mér af hverju við erum alltaf að flýta okkur svona mikið. Hverju máli skipta þessar örfáu mínútur sem vinnast með því að stíga allt í botn, liggja á flautunni og spæna upp íbúðahverfi á ofsahraða? Ég geri mér fulla grein fyrir því að það geta skapast aðstæður þar sem hraðakstur er nauðsynlegur - en þá er bara að skella koddaveri eða klósettrúllu út um gluggann svo allir sjái að þar sé neyðarakstur á ferð. Tengdapabbi, sem hefur séð ýmislegt misjafnt á gjörgæslunni síðustu áratugi hefur haft á orði að betra sé að vera 5 mínútum of seinn en að vera 50 ár í hjólastól. Það held ég sé nákvæmlega málið. Ekki nenni ég að liggja á flautunni lendi ég fyrir aftan gamlan kall með hatt á ljósum. Það skilar nákvæmlega engu - nema þá kannski helst að kallinn fái hjartaáfall og maður komist ekki af ljósunum fyrr en sjúkrabíllinn er búinn að athafna sig.
Slökum á.
Víóluskrímslið - max 100
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli