Illgirni og almenn mannvonska

mánudagur, mars 03, 2008

Ævintýri á gönguför

Það hefur ekki farið fram hjá neinum hér á skerinu að veturinn hefur verið fremur harður. Dag eftir dag kyngir niður snjó sem þiðnar af og til en frýs svo jafnharðan aftur svo úr verður svell sem fær jafnvel svifryksfælna asmasjúklinga til þess að skipta yfir í nagladekk.

Það má segja litla Rauð til hróss að sama hvernig hefur viðrað á Reykjanesbrautinni í vetur hefur hann plægt sig í gegnum ófærðina eins og skriðdreki eiganda sínum til mikillar gleði og léttis. Með einni undantekningu þó.

Í fyrsta skotinu sem varð eftir áramót gerði ég þau mistök að leggja af stað í vinnuna án þess að hlusta á útvarpsfréttirnar. Ég vissi þar af leiðandi ekki að það var nánast ófært innanbæjar í Njarðvíkunum eftir snjókomu næturinnar. Ég lullaði úteftir á 60 eins og menn gera í vondu veðri og beygði grunlaus inn í bæinn. Rétt áður en ég kom að Akurskóla sá ég Schaferhund á veginum. Það var skafrenningur, él og hífandi rok og ekki gat ég séð að hundurinn væri í för með nokkrum manni. Ég opnaði dyrnar og kallaði á greyið sem þaut til mín eins og píla. Schaferhundar eru ekki gerðir fyrir íslenskt skítaveðurfar og veslingurinn skalf úr kulda. Hann var ómerktur og allslaus svo ég ákvað að taka hann upp í bílinn og láta lögguna vita af honum. Í óðagotinu beygði ég inn á bílastæðið við Akurskóla. Það reyndust stór mistök. Skriðdrekinn litli Rauður sat pikkfastur í 50 sm djúpum snjó og ég með bláókunnugan hund í bílnum.

Ég hringdi í vinnuna og lét vita að mér myndi seinka aðeins af ofangreindum ástæðum. Skólaritaranum fannst það frekar fyndið. Ég lagði á, hringdi í lögguna og lét vita af hundinum. Lögreglumaðurinn í símanum spurði hvort ég gæti komið með hundinn niður á lögreglustöð. Ég útskýrði hvers vegna það gengi ekki upp. Hann lofaði að senda bíl.

Góða stund sátum við saman í bílnum, ég og hundurinn. Ég spjallaði við hundinn sem virtist ágætlega sáttur við að sitja hjá mér. Klukkan tifaði og ég var orðin of sein í vinnuna. Hundurinn sleikti mig í framan. Það fór ekki vel með gleraugun. Eftir nokkurn tíma kom lögreglubíll og út úr honum stigu 2 lögreglumenn, sposkir á svip. Þeir stungu uppá því að losa bílinn áður en þeir tækju dýrið með sér. Það leist mér vel á. Hófst þá mikið vagg og velta, krydduð með háværum frethljóðum í bílnum sem eitthvað átti erfitt með ástandið. Við þetta hætti hundinum að standa á sama. Honum leist ekkert á fleygiferðina á bílnum og byrjaði að gelta hástöfum.

Þetta var ótrúlega súrrealískt. Ég sat þarna föst í skafli með snarbrjálaðan ókunnan hund hjá mér í framsætinu og tvo lögreglumenn og einn skólaliða að hossast á bílnum mínum hvers búkhljóð urðu síst kurteislegri við aðfarirnar. Við þetta bættist kjarnyrt blót frá sjálfri mér sem braust fram milli þess sem ég reyndi að sussa á hundinn.

Þökk sé hetjulegri framkomu hjálparmanna minna og lagni sjálfrar mín á 14 ára gamalli kúplingunni losnaði litli Rauður skjótt úr skaflinum. Hundurinn hætii að gelta. Ég brölti út úr bílnum og þakkaði bjargvættunum sem buðust til að taka "dýrið" með sér. Og það gerðu þeir.

Eftir þetta hef ég ekki lent í frekari hremmingum í vetrarfærðinni. Spurningin er aðeins sú hvenær ég rekst næst á einmana hund í éli á dimmum vetrarmorgni.

Víóluskrímslið - voff

Engin ummæli: