Tryllingurinn
Það verður seint sagt um mína nánustu fjölskyldu að þar sé aðeins að finna stökustu snyrtimenni með ofnæmi fyrir ryki. Tiltekt og þrif hafa gjarnan verið aftarlega á forgangslistanum enda skítt að eyða ævinni með tusku í annarri höndinni og moppu í hinni þegar hægt er að eyða henni í eitthvað miklu skemmtilegra - eins og tildæmis það að vinna vaktavinnu og sofa.
Þrátt fyrir að draslstandardinn sé öllu hærri þar en annars staðar kemur það fyrir að fjölskyldumeðlimir taka til hendinni og það svo um munar. Er þá farið um íbúðina eins og stormsveipur væri þar á ferð. Draslhaugar hverfa eins og hendi væri veifað, sett er í þvottavélar á færibandi og ryk moppað út úr myrkustu skúmaskotum. Þetta andsetna ástand varir í nokkrar klukkustundir og á þeim tíma tekst að umbreyta heilli íbúð úr pestarbæli í forsíðuefni á Hús og Híbýli.
Í okkar fjölskyldu gengur slíkt tiltektaræði undir nafninu "tryllingurinn". Að "taka trylling" þýðir semsagt að taka til. Tryllingurinn rennur einkum á fólk í aðdraganda jóla og páska en einnig kemur fyrir að hann geri vart við sig þegar minnst varir. Skyndilegt ógeð á draslinu í kringum sig getur komið af stað tryllingi og gildir þá einu hvað klukkan er þegar æðið rennur á mann. Hér hefur dr. Tót rekið upp stór augu er tryllingur rennur á okkur systur um miðnætti á miðvikudegi. Enda er hann ekki B maður.
Í dag var tekinn tryllingur hér á Langholtsvegi. Hann var í lengra lagi svo það er þokkalega víst að ekki verður þörf á öðru eins í bráð. Þó er aldrei að vita enda sést draslið allt svo miklu betur með hækkandi sól.
Víóluskrímslið - ekki er sama drasl og skítur
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Sama hér. Skil ekki fólk (ég þekki í alvörunni þannig fólk) sem þrífur á hverjum laugardagsmorgni í nokkra tíma í einu. Til hvers að anda að sér sítrónulykt alla vikuna þegar maður getur auðgað andann, horft á sjónvarp eða sofið? Tryllingurinn er betri. Þeir sem hafa tryllinginn eru guðsbörn.
Skrifa ummæli