Tveir Rómarkeisarar
Skólinn er byrjaður og lífið óðum að komast í reglubundið horf eftir anarkisma sumarleyfisins. Þrjá daga í viku brenni ég á mínum 14 ára fjallabíl suður í Reykjanesbæ þar sem ég kenni 20 krökkum og 3 strengjasveitum um undraheima tónlistarinnar. Hina tvo sit ég við tölvuna og skrifa tölvupóst, geri áætlanir, æfi mig og útset. Það er að minnsta kosti planið - þegar við erum búin að taka til og taka upp úr kössunum.
Enn er vinnuherbergið (eða KONTÓRINN eins og dr.Tót heimtar að kalla værelset) fullur af kössum. Flestir eru fullir af bókum. Það verður nokkurra helga verk að sortera þær. Sérstaklega þegar maður hefur fengið ferfættan félagskap sem sýnir þeirri vinnu mikinn áhuga.
Fyrir mánuði síðan fluttu til okkar tveir bræður að norðan sem höfðu fundist ásamt móður sinni og systkinum í fjárhúsi rétt fyrir ofan Sauðárkrók. Góðir vinir okkar fréttu af þeim og tóku í fóstur þar til NÝJA ÍBÚÐIN var orðin nokkurn vegin kattheld. Bræðurnir hlutu nöfnin Títus og Gaius eftir tveimur geðveikum Rómarkeisurum enda ekki annað hægt þegar húsráðendur eru vonnabí sagnfræðinörd.
Þeir Títus og Gaius eru afskaplega vel heppnuð eintök, kelnir og indælir með afbrigðum og klóra ekki húsgögnin nema alveg óvart. Þeir hafa átt heima inni í svefnherbergi og fátt er ljúfara en að vakna af værum blundi með mjúkan kettling í fangi. Flestir sem þá hafa hitt eru afskaplega hrifnir af þeim en fyrir þá sem ekki deila þeirri hrifningu má geta þess að lítið mál er að loka þá inni ef menn líta inn. Lyfjabúr heimilisins hefur auk þess stækkað með tilkomu ofnæmislyfja svo öllum ætti að vera óhætt að kíkja við.
Ég segi fyrir mig að ég er afskaplega ánægð með þá. Meira að segja þegar ég er að vinna stundaskrár í tölvunni og annar þeirra skellir annarri framloppunni á delete.
Víóluskrímslið - mjá
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Til hamingju með kettina og íbúðina :-)!! Er komin til USA og er í góðum gír. Kær kveðja Sirrý
ææ og hver var sá óheppni að fá nafnið Gaius?? það verður víst ekki hægt að kynna hann fyrir stelpunum mínum ;)
en VELKOMIN í kattarhópinn - og tveir í einu meira að segja!
knús frá Hallveigu,
og mal frá Friðu og Sunnu
Skrifa ummæli