Illgirni og almenn mannvonska

laugardagur, desember 27, 2008

Gleðileg jól!

Á þriðja degi jóla er loks svo komið að mér hefur tekist að snúa sólarhringnum við. Hér er lesið fram á miðjar nætur (í fjarveru dr. Tóts sem er á bakvakt í Borgarnesi) og vaknað um hádegi - oftar en ekki með sofandi kött á hausnum. Fátt býður upp á meiri sálarfrið en að stinga nefinu í sofandi kattarbelg og deila draumum um harðfisk og samankrumpuð sælgætisbréf sem gaman er að troða undir sófa.

Aðfangadagskvöldi eyddum við dr.Tót á bakvaktinni, átum þrímælt og tókum upp margar góðar gjafir þar til löngu eftir miðnætti. Öllu var tjaldað til til þess að gera læknabústaðinn sem heimilislegastan. Þegar búið var að slökkva öll rafmagnsljós og kveikja á ótal kertum var orðið ansi hátíðlegt. Rauða glimmer- ferðajólatréð gerði heilmikið fyrir stemmninguna.

Í dag er rétt rúm vika eftir af fríinu. Ég ætla að liggja í leti fram á síðasta dag. Enda verður spýtt í lófana þegar skólinn byrjar aftur. Það verður fjör.

Víóluskrímslið - vill meiri Sturlungu

Engin ummæli: