Illgirni og almenn mannvonska

laugardagur, nóvember 18, 2006

Fahren, fahren, fahren auf dem Autobahn

Síðasta vika var vika hins morgunfúla og viðskotailla víóluskrímslis. Það fer ekki vel með sálina að þurfa að fara á fætur klukkan sjö á hverjum morgni og vera stanslaust að til miðnættis.

Ástæða þessara anna voru m.a. tvö hljómsveitarverkefni, annað með verkum eftir Britten og Handel og hitt með nútímatónlist eftir ýmis tónskáld, þar á meðal nokkra nemendur skólans. Það tekur á taugarnar það læra tvö prógrömm samhliða, sérstaklega þegar maður vill heldur vera að æfa sig fyrir lokaprófið sem nálgast óðfluga. Auk þess fylgdu seinna verkefninu mikil ferðalög, þar á meðal til Munster í Þýskalandi. Þangað keyrðum við í gær, settum upp svið, spiluðum í klukkutíma, tókum sviðið niður aftur og keyrðum til baka. Ég fékk far með vörubílnum, sem ökumaðurinn náði upp í 140 km á klukkustund þrátt fyrir að vera með fullan bíl af slagverki og örþreyttum tónlistarnemum. Það tel ég vel af sér vikið.

Í dag lá ég í leti og eldaði mér fyrstu almennilegu máltíðina í viku. Ekki meiri samlokur í bili takk.

Á morgun fer ég til Eindhoven að spila á tónleikum með hollenskum áhugamannakór sem gæti komið sterklega til greina sem falskasti kór Evrópu norðan Alpafjalla. Þemað er Mozart noktúrnur og forsvarsmaður kórsins vildi að strengjaleikararnir yrðu með hvítt blúnduslifsi úr gömlum gardínum. Ég sagði nei.

Mig langar heim í frostið.


Víóluskrímslið - tæknileg mistök

Engin ummæli: