Meindýr
Á meðan ég bjó á Íslandi var mér aldrei neitt sérstaklega illa við skordýr. Þegar við Margrét vorum litlar létu mamma og pabbi okkur nefnilega leika okkur með köngulær og ánamaðka til að gera okkur að sterkum og mögnuðum valkyrjum. Það tókst ágætlega.
Þegar ég flutti svo til H-lands komst ég að því að skordýr geta verið ferlega hvimleið og leiðinleg. Mér þótti ekki gaman að stíga berfætt á stökka kakkalakka í morgunsturtunni (gleraugnalaus og allslaus) og ekki fannst mér sjarmerandi að finna maura í matnum mínum. Moskítóflugur hafa haldið fyrir mér vöku margar nætur og silfurskotturnar hafa sungið fyrir mig nótt og dag. Verst var ástandið í Húsi hinna töfrandi lita, sem eftir á að hyggja getur vart talist mannabústaður.
Nú bý ég í aldeilis ágætri stúdentaíbúð þar sem lítið ber á fyrrnefndum kvikindum enda eru pípulagnirnar í góðu standi. Auk þess límdi ég moskítónet fyrir svefnherbergisgluggann ekki alls fyrir löngu. Eftir standa aðeins tvær sortir, köngulærnar og bévítans ávaxtaflugurnar.
Mér þykir vænt um köngulær. Þær veiða leiðinlegar flugur sem annars færu í taugarnar á mér og sitja rólegar í vefnum sínum þess á milli. Nú búa hjá mér 4 boldungs köngulær og ég fæ ekki betur séð en þar séu þrjár mismunandi tegundir á ferð. Að sjálfsögðu hef ég nefnt þær allar, í stofunni býr Hólmfríður, Linda P í eldhúskróknum, Unnur Birna er í vinstra baðherbergishorninu og Anna Margrét rétt fyrir utan svefnherbergisgluggann.
Um ávaxtaflugur gegnir öðru máli. Þær fjölga sér eins og kanínur og vaða um allt hús á frekjunni einni saman. Þrátt fyrir að fegurðardrottningarnar fjórar geri sitt besta til að vernda mig og heimili mitt gegn þessum skaðræðisdýrum sér ekki högg á vatni eftir daginn. Því tók ég til minna ráða nú í dag. Öllum ávöxtum var troðið í steríla plastsekki og bundið fyrir. Svo tók ég fram handryksuguna.
Hversu margar ávaxtaflugur létu lífið í því eðla tæki veit ég ekki fyrir víst. Hitt veit ég þó að mér þótti afar mikil skemmtun í að ganga frá kvikindunum.
Ég skildi akkúrat nógu margar eftir í kvöldmatinn handa gæludýrunum og skolaði svo ánægð úr síunni. Á morgun ryksuga ég aftur.
Stundum er gaman að vera til.
Víóluskrímslið - lord of the flies
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli