Berlín
Ég var hjá litlu systur í Berlín um helgina og skemmti mér vel. Þau Róbert eru búin að koma sér val fyrir í gríðarflottri íbúð með meiri lofthæð en ég mun nokkru sinni búa við ef fram heldur sem horfir.
Að sjálfsögðu sátum við ekki auðum höndum. Við fórum á stórgott gigg með hljómsveitinni Brainpolice þar sem 3 kynslóðir slömmuðu í takt og undurfagra tónleika með norska drengjakórnum Sölvguttene í Berliner Dom. Auk þess fórum við á nútímalistasafnið Hamburger Bahnhof, testofu þar sem hægt er að fá gott te og rússneska kjötsúpu, á flóamarkað þar sem ég keypti mér marglita afar anníska hliðartösku til að geyma nestið mitt í og í partí þar sem hægt var að klifra upp á þak og skoða stjörnurnar.
Síðast en ekki síst fórum við Margrét og Róbert á myrkraveitingastaðinn Nocti Vagus þar sem snætt er í kolniðamyrkri og maður verður að reiða sig á öll önnur skynfæri til þess að sjá til þess að maturinn fari upp í mann en ekki á gólfið. Tveir ærsladraugar voru meðal gesta og skemmtu okkur með hrekkjum. Við vorum að mestu látin í friði en það gilti ekki um nokkra gesti staðarins sem draugarnir lögðu í hálfgert einelti, sennilega vegna þess að viðkomandi gestir ráku upp svakaleg öskur og píkuskræki í hvert sinn sem draugur potaði í þá. Það var svo ekki fyrr en búið var að leiða okkur aftur upp í ljósið að okkur var tjáð að ið hefðum m.a. borðað krókódíl og strút þarna í myrkrinu. Stórgott.
Þegar ég kom heim var bara ein könguló eftir í íbúðinni. Fegurðardrottningar eiga greinilega ekki skap saman til lengdar.
Víóluskrímslið - snúið aftur til hversdagsleikans
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli