Illgirni og almenn mannvonska

mánudagur, október 30, 2006

Gæludýr

Þeir lesendur sem voru fastagestir í Rottuholunni á dýrðarárunum 1999-2002 muna eflaust eftir páfagaukaelliheimilinu í eldhúsinu. Þar rak ég hjúkrunarheimili fyrir eldri gára sem auk fæðis og húsnæðis nutu þar félagskapar hvers annars og flugu hringi um eldhúskytruna, mörgum mennskum gestum til almennrar hrellingar.

Mér þótti afar vænt um þau Tístu, Kíkí, Pásu, Kasper og Friðgerði. Þegar ég gisti í rottuholunni í sumar rakst ég á uppþornað drit í eldhúsinu sem mér hafði af einhverjum ástæðum sést yfir þegar ég yfirgaf íbúðina haustið 2002. Þá hlýnaði mér um hjartarætur.

Síðan þá hef ég ekki átt þess kost að eiga gæludýr enda býður óreglulegt líferni og sífellt flakk milli landa ekki upp á slíkt. Ég hef þess í stað hænt að mér spörfugla með matargjöfum og notið heimsókna katta úr nágrenninu sem stundum hefur þóknast að heiðra mig með návist sinni. Það jafnast þó ekki á við það að eiga sitt eigið gæludýr.

Ég hlakka til að koma heim því þá ætla ég að fá mér kött. Ekki mús eða fisk, fugl eða úlf, heldur bröndótt fjósafress sem á að heita Bismarck. Hann skal vera feitur og fallegur, skapgóður og mjálmgefinn. Á hann ætla ég að festa bjöllu og spjald og við getum malað saman á kvöldin.


Víóluskrímslið - mjá.

Engin ummæli: