Illgirni og almenn mannvonska

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Minn eigin persónulegi sauðsskapur

Mér er sagt að ég geti stundum verið afar utan við mig. Ég tek sjaldnast eftir því - nema þegar ég geng á staura, helli sjóðandi vatni yfir höndina á mér, fæ flautukór í hausinn því ég gleymi að taka af stað á grænu, hrasa um gangstéttarbrúnir, læsi mig úti og fleira skemmtilegt.

Það kemur einfaldlega stundum fyrir að ég er svo þungt hugsi yfir einhverju sem hvílir á mér þá stundina að ég tek ekki alveg nógu vel eftir því sem er að gerast í kringum mig. Eins og í dag.

Í hádeginu kom ég við í veitingasölu KS í Varmahlíð og fékk mér þar hádegisverð. Ég fékk fínt rúnstykki á disk og skyrdrykk á bakka og var heldur kát með mitt. Rúnstykkið bragðaðist vel enda með miklu smjöri og skyrdrykkurinn var langt frá því að vera á síðasta söludegi. Ég var því afar sátt þar sem ég sat og át, með útsýni yfir í Blönduhlíðina í sól og blíðu. Á meðan ég snæddi renndi ég yfir verkefni næstu vikna í höfðinu. Stigspróf og útskriftir eru á næsta leiti og krakkarnir mis vel á vegi stödd. Skipulagningin sóttist vel, þegar ég renndi niður síðustu dropunum af skyrdrykknum (með jarðarberjabragði) var ég búin að skapa hernaðaráætlun fyrir allan hópinn.

Ég var voða montin. Svona á að gera þetta, hugsaði íslenski vinnualkinn, nota hádegisverðinn til þess að skipuleggja vinnuna. Ég var svo ánægð með þetta að ég ákvað að létta undir með afgreiðslufólkinu og fleygja sjálf af bakkanum mínum. Það var ekki fyrr en ég heyrði hávaðann í ruslatunnunni að ég áttaði mig á því að ég hafði fleygt disknum undan rúnstykkinu í ruslið.

Nei andskotinn....hugsaði ég og flissaði örlítið yfir mínum eigin sauðsskap. Ég leit í kringum mig til þess að athuga hvort einhver hefði orðið vitni að þessu afreki. Enginn virtist hafa orðið var við neitt. Ég gjóaði augunum ofan í ruslið en diskurinn var horfinn sjónum. Ég leit aftur í kringum mig. Ofan í ruslið. Svo hljóp ég út.

Það var nú gott að þetta var bara diskur.


Víóluskrímslið - vandráður viðutan

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku sysrtið mitt þú læsir þig nú varla úti miðað við tilburði þína við að athuga hvort að hurðin sé læst - fimm sinnum eftir að þú ert farin út ;) Gangi þér annars vel í óperunni í dag og góða skemmtun. Þinn grís