Illgirni og almenn mannvonska

þriðjudagur, apríl 24, 2007

Óperur
Óperur eru merkilegt listform. Allt frá þeim dögum þegar geldingarnir sigruðu heiminn klæddir kvenfötum og riddarabrynjum á víxl til okkar tíma þar sem karlar og konur þenja raddböndin hægri vinstri og allt um kring hafa þær heillað fjöldann allan af tónlistarunnendum og enn fylla kassastykkin óperuhús um allan heim.
Óperur hafa oftar en ekki svakalega flókinn söguþráð. Til dæmis gæti ópera auðveldlega verið á þessa leið:

Kona verður ástfangin af manni sem kemur svo í ljós að er bróðir hennar. Eftir mikinn grát og gnístran tanna, margar hálftíma kveðjusenur, nokkur skrímsli, óveður með vindvél, svikular vinkonur, undirförula vonbiðla, trygga garðyrkjumenn með gúmmíendur og misheppnaða sjálfsmorðstilraun aðalpersónunnar með klósetthreinsi kemur í ljós að hinn heittelskaði reynist vera hálfbróðir systur frænda hennar í fimmta lið og þá brestur á mikil gleði. Óperan endar með tvöföldu brúðkaupi elskendanna og garðyrkjumannsins og gúmmíandarinnar hans og fagna hlutaðeigendur með svaka löngu tríói þar sem tístið í gúmmíöndinni leikur stórt hlutverk.

Það er ekkert skrítið að óperur skuli vera mönnum hugleiknar þegar þær bjóða upp á svona fjör.

Þessa dagana stendur ópera Skagafjarðar fyrir vasauppfærslu af La Traviata. Þar koma fram afturbata vændiskonur, siðavandir feður, óðir ástmenn, stanslaus partí og svall, dularfullir samningar, heitrof, geðveiki og svo deyja allir úr berklum. Að ekki sé minnst á DÖMUBINDALAGIÐ víðsfræga!

Ég held að ég geti lofað mönnum góðri skemmtun á sunnudag komanda. Allir á óperuna!

Víóluskrímslið - MIMI


1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvernig getur maður ekki skemmt sér yfir dömubindalaginu og afturbata vændiskonum?;)