Illgirni og almenn mannvonska

mánudagur, desember 12, 2005

Mahler

Um skeið hefur hópur rótlausra ungmenna verið til töluverðra vandræða á torginu fyrir framan konservatoríið. Allan daginn hanga börnin á torginu og í portinu við skólann og dunda sér við að reykja hass, drekka ódýran bjór, rífast, ergja vegfarendur og reyna að leika listir sínar á hjólabretti. Ég segi reyna vegna þess að það er ekki sjálfgefið að halda jafnvægi á hjólabretti þegar fólk er búið að reykja hass og drekka bjór ofan í það allan daginn.

Bæjaryfirvöld höfðu reynt ýmislegt til að fá krakkana burt af torginu en ekki haft erindi sem erfiði. Þar til þau duttu niður á töfralausn sem reynd hafði verið í Rotterdam með góðum árangri. Klassíska tónlist.

Svo virðist sem klassísk tónlist hafi svipuð áhrif á þennan þjóðfélagshóp og hátíðnihljóð hafa á rottur. Enda hurfu ungmennin rótlausu eins og hendi væri veifað þegar Mahlersinfóníur hófu að hljóma úr hátölurum umhverfis torgið. Allan daginn.

Mikið var vinalegt að koma út úr skólanum á autt torgið (almennir borgarar virðast forðast Mahler jafnmikið og vandræðabörnin) og labba yfir það án þess að eiga það á hættu að fá framan á sig skakkan hjólabrettadreng eða drukkna smástelpu í leit að vandræðum. Mahler blífur!

En Adam var ekki lengi í paradís. Það leið ekki á löngu áður en mér var farið að líða eins og Mahlerhrjáðum götukrökkum heima hjá mér.

Undanfarnar 2 vikur hefur Luis nefnilega æft bassapartinn í Jólaóratóríu Bachs ALLAN DAGINN. Eins og Jólaóratórían er stórkostlegt verk er bassaparturinn einn og sér ekkert sérstakur. Þó ljótt sé frá að segja fæ ég æluna upp í háls núorðið um leið og Luis byrjar að stilla bassann. Þar er illa farið með góða músík.

Ég ætti kannski að fá mér hjólabretti.


Víóluskrímslið - helvítis IV V I6/4 V I alltaf hreint

Engin ummæli: