Illgirni og almenn mannvonska

föstudagur, desember 09, 2005

Sjónvarp

Ég flutti að heiman haustið 1999. Síðan þá hef ég ekki átt sjónvarp. Ekki get ég sagt að ég hafi saknað þess mikið enda fanatískur bókasafnari - eins og allir þeir sem einhvern tímann hafa hjálpað mér að flytja hafa kynnst.

Ég geri heldur ekki ráð fyrir að eignast sjónvarp í bráð. Það sem helst fælir mig frá því er sú staðreynd að maður getur ekki verið sinn eiginn dagskrárgerðarmaður. Ekki er enn sjálfgefið að kveikja á sjónvarpinu og sjá aðeins fram á sérvalda nördadagskrá að hætti víóluskrímslisins sem inniheldur vel gerðar bíómyndir með sögulegu ívafi, heimildamyndir og alvöru sjónvarpsþáttaraðir. Eins og Jeeves og Wooster.

Önnur ástæða þess að sjónvarp er ekki nauðsynlegt á mínu heimili er skynsamlegasta fjárfesting sem ég hef ráðist í fyrir utan hljóðfærin mín, kjöltutölvan Herbert. Með Herbert að vopni get ég fylgst með fréttum, séð stöku vandamálakastljós og svalað sorpþörfinni með flakki um öldur alnetsins. Ekki spillir fyrir að Herbert er búinn allri nýjustu nútímatækni og ekki þarf nema létta snertingu með vísifingri hægri handar til þess að hann geri allt sem ég vil.

Í dag steig ég stórt skref í þróun eigin dagskrárgerðar og fjárfesti í mínum fyrsta dvd disk, BBC sjónvarpsþáttaröðinni um Kládíus Rómarkeisara og hans fjölskylduvandamál. 10 klukkutímar af sagnfræði stendur á hulstrinu. Sagnfræði, einmitt. Gerist það nördalegra? Eða betra?


Víóluskrímslið - ég held ekki

Engin ummæli: