Illgirni og almenn mannvonska

sunnudagur, júní 24, 2007

Svífur yfir Esjunni

Dagurinn í dag var með eindæmum veðursæll og fagur. Eftir vinnu tók við lautarferð í Elliðaárdal í sérdeilis góðum félagskap fröken Stefaníu - og síðan skruppum við amma í bíltúr til Þingvalla og gengum þar góðan hring.

Á leiðinni til baka skein miðnætursólin svo skært í augun á mér að ég keyrði mest alla leiðina eftir minni.

Ég skutlaði ömmu heim, þáði mjólk og kleinu við rauða eldhúsborðið hennar og hélt svo sem leið lá heim á Langholtsveg. Esjan, Akrafjallið og Skarðsheiðin voru sveipuð dýrðarljóma og gullbrydd ský svifu hátt á himni. Yfir mig færðist rómantískt æði og ég hóf að kyrja ,,svífur yfir Esjunni" af miklum móð.

Þá laust niður í huga mér minningu um ískalda vetrarnótt fyrir 6 árum síðan þegar ég var á næturvakt og fór í næturgöngu með einhverfum pilti sem átti erfitt með svefn. Við höfðum gengið nokkra stund í algerri þögn þegar hann hóf skyndilega upp raust sína og söng fyrir mig ,,svífur yfir Esjunni" - öll erindin. Það var rosalegt.

Minningarnar ná stundum í skottið á manni þegar síst lætur.


Víóluskrímslið - sólroðið ský

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku systr, viltu vera svo væn að taka eins og eina mynd af miðnætursólinni fyrir mig, jafnvel út um gluggann á langholtsveginum.. hér er bara dimmt :/