Illgirni og almenn mannvonska

þriðjudagur, október 09, 2007

Veisluhöld

Undanfarnar tvær helgar hafa einkennst af miklum veisluhöldum. Þessar veislur voru báðar með afbrigðum skemmtilegar þótt ólíkar væru.

Sú fyrri var síbúin brúðkaupsveisla þeirra Stefáns félaga míns og hans frómu ektakvinnu Guðrúnar. Þar var nóg að bíta og brenna og skemmtiatriði á hverju strái. Hið nýstofnaða tangóband Finlandia BigBand lék þar 3 lög fyrir dansi við mikinn fögnuð og fór dr. Tót þar á kostum á snerlinum. Hápunkti veislunnar var þó náð þegar brúðhjónin valhoppuðu í kringum veisluborðið við undirleik brúðarmarsins með kongaröð af kátum gestum á eftir sér. Svona eiga brúðkaup að vera!

Seinni veislan var villibráðarveisla sem við vinkonurnar Guðný og Sólrún lentum í fyrir slysni um helgina á ferðalagi okkar um Snæfellsnes. Þar borðuðum við sel og hval og fleira lostæti og stóð átið fram undir morgun. Þar hittum við lítinn hollenskan dreng sem kvaðst vinna þar á bóndabæ í grenndinni. Drengur sá hafði afar hollenskar hugmyndir um hlutverk kynjanna og átti bágt með að trúa því að til væru konur sem vildu og gætu verið fjárhagslega sjálfstæðar. Þegar hann rökstuddi þessa skoðun sína með því að vitna í hellisbúasamfélagið svaraði Guðný því til með setningu kvöldsins : "There is this thing called evolution, you know."

Næstu helgi á ég hins vegar ekki boð í neina veislu. Hvað gera bændur þá?

Þá held ég hana bara sjálf, sagði litla gula hænan. Hver vill koma í matarboð?

Víóluskrímslið - party on

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ég væri alveg til í matarboð en er að fara í partý á föstudaginn og svo er ég búinn að bjóða tveim vinnufélögum í mat á laugardaginn, svo að það er nóg að gera hjá mér í bili. kær kveðja SÓ