Illgirni og almenn mannvonska

þriðjudagur, ágúst 21, 2007

Í fréttum er þetta helst

Ég er komin heim. 3 vikna flakki er lokið og við tekur nýtt líf.

Hr. Schiffer var sprækur sem lækur á námskeiðinu í Morges þrátt fyrir að vera kominn á áttræðisaldur og hafa nýlega farið í hjáveituaðgerð. Hr. Schiffer er frægur fyrir að öskra og æpa í kennslustundum en í þetta sinn æpti hann ekkert sérlega mikið. Kannski var honum ráðlagt að passa þrýstinginn. Tímarnir voru friðsælir og góðir en annað mátti segja um svefnaðstöðuna, sem var gluggalaust neðanjarðarbyrgi fullt af hávaðasömum spænskumælandi gelgjum á ýmsum aldri sem fóru í sturtu á sundfötunum. Víóluskrímslið hvessti sig ítrekað við hávaðaseggina, sem áttu helst við það vandamál að stríða að vera ófærir um að lækka róminn. Það hafði lítið að segja enda töluðu þeir ekkert þeirra mála sem ég kann og ekki get ég talað spænsku. Dvölin í Sviss var því svefnlaus að mestu leyti.

Frá Sviss hélt ég til H-lands, þar sem ég eyddi 3 dögum í að hitta vini og kunningja áður en haldið var á annað námskeið í Aardenburg. Þar var margt um manninn og stíft prógramm. Því var ég orðin ansi útvötnuð þegar ég lenti í Keflavík aðfaranótt mánudags. Pabbi og litli grís sáu aumur á mér og sóttu mig vestureftir. Það er gott að eiga góða að.

Þeir sem beðið hafa í ofvæni eftir fréttum af framtíðaráætlunum mínum fá forvitni sinni svalað hérmeð; Ég ákvað að slá mastersnámi á frest. Núverandi fyrirkomulag hefði krafist þess að til væru tvær Önnur - eða að sú eina sem til er flytti aftur til H-lands í tvö ár. Það er ekki inni í myndinni. H-lenskt kvef, sem ég tók með mér heim og nú hrjáir mig, minnir mig rækilega á það hvers vegna mig langar ekki að flytja þangað aftur. Sem staðfestingu á þessari ákvörðun skráði ég mig upp á nýtt í símaskrána undir starfsheitinu tónlistarkennari.

Við systur munum hefja búskap í risíbúð á Langholtsvegi í september ásamt viðhengjum. Stefnt er að reglulegu líferni, árangursríkri eldamennsku og almennum notalegheitum.

Það er kominn tími til þess að hafa tíma til að vera til.


Víóluskrímslið - elskum friðinn, strjúkum kviðinn

Engin ummæli: