Illgirni og almenn mannvonska

miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Kúkamál hin seinni

Þegar ég sat yfir þriðja tebollanum við eldhúsborðið í morgun heyrði ég kunnuglegt mjálm utan við gluggann. Þar var kötturinn Bezoek á ferð, en hún hefur ekki látið sjá sig síðan hún skreytti eldhúsgólfið með eftirminnilegum hætti á mánudagsmorgun.

Ég stóð upp og hleypti kettinum inn enda skítakuldi úti. Bezoek skaust inn milli fótanna á mér með háværu mjálmi og stökk upp á stólinn sem hún hefur eignað sér undanfarið. Þar sat hún og hvessti á mig gular glyrnurnar.

Heyrðu mig væna, sagði ég. Það þýðir ekkert að skíta út annarra manna hýbýli jafnvel þó maður sé alveg í spreng og komist ekki út.

Mjá, sagði kötturinn og hallaði undir flatt.

Ætlarðu að lofa mér því að gera þetta aldrei aftur? Sagði ég, enda Bezoek gáfaður köttur sem skilur íslensku.

Bezoek stökk þá niður af stólnum og nuddaði sér vandlega upp við fæturna á mér. Svo leit hún upp og mjálmaði. Mér fannst hún vilja segja "Ég get engu lofað um það..."

Ég skildi bakdyrnar eftir opnar þegar ég fór upp.


Grenj

Héðan í frá mun ég mæla gæði listaverka í grenjstigum.

Mér varð þetta ljóst rétt áðan þegar ég fór að grenja yfir Adagio kaflanum í Grand partítu Mozarts. Það verk fær 8 grenjstig af 10 mögulegum.

Í gærkvöldi fór ég að grenja yfir Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness. 11 grenjstig af 10 mögulegum.

Kannski er þetta bara dulin heimþrá. Afþvíað skrímslum leyfist ekki að grenja yfir svoleiðis.


Víóluskrímslið - mjúkt eins og (nýtt) Lindubuff

Engin ummæli: