Þursabit
Það að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði hefur öðlast nýja merkingu fyrir mér.
Hljómsveit skólans, undir stjórn herra Jac van Steen (eins klístraðasta Íslandsvinar sögunnar) hélt hausttónleika í kvöld. Síðasta verk á dagskrá var fiðlukonsert Beethovens. Einleikari var Michael Erxleben, mikill virtuós og fiðlusnillingur. Herra Erxleben spilaði eins og engill í kvöld og var kallaður fram á svið þrisvar sinnum eftir tónleikana. Honum fannst það ekkert sérstaklega gaman. Hann fékk nefnilega þursabit í morgun og gat varla hreyft sig, hvað þá stormað fram og til baka um sviðið.
Allir þeir sem kannast við fiðlukonsert Beethovens vita að hér er um vandmeðfarið verk að ræða. Þessvegna héldu flestir að herra Erxleben myndi melda sig veikan í kvöld enda ekki mikið stuð að spila þvílíkt verk þegar menn geta ekki staðið uppréttir. Hins vegar mætti herra Erxleben á generalprufu, studdi sig við staf á leið inn á svið og spilaði konsertinn hálfsitjandi á kontrabassastól. Þar sem ég sat á fyrsta púlti sá ég hvað manninum leið illa. Samt var það ekki að heyra á leik hans. Það fannst mér magnað.
Á tónleikunum haltraði herra Erxleben inn á sviðið í mörgæsabúningnum, hneigði sig með erfiðismunum og stóð eins og klettur á meðan heillangur inngangurinn rann sitt skeið. Svo byrjaði hann að spila. Næstu 40 mínúturnar lék herra Erxleben sig inn í hjörtu áheyrenda. Svitinn rann af honum og í hverri einustu þögn gætti hann þess að hreyfa sig ekki svo sársaukinn yrði ekki verri. Þegar síðasti þátturinn var á enda var maðurinn kominn með tár í augun af sársauka. Svo var hann klappaður þrisvar upp og þurfti að hneigja sig jafnoft. Í síðasta skiptið hélt ég að hann myndi aldrei geta rétt úr sér aftur.
Nú liggur herra Erxleben ábyggilega inni á hótelherbergi, horfir á bláu stöðina í sjónvarpinu og bryður voltaren rapid eins og smartís. Ég fyrir mína parta ætla aldrei aftur að tuða þegar mér er illt í bakinu á æfingum. Eftir að hafa orðið vitni að svona nokkru flokkast það bara undir aumingjaskap.
Víóluskrímslið - atvinnumaður
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli