Illgirni og almenn mannvonska

laugardagur, nóvember 05, 2005

Minning


Í gær lést í Reykjavík Kristjana Konkordía Guðmundsdóttir frænka mín, 96 ára að aldri. Með henni er genginn einhver mesti kvenskörungur sem Ísland hefur alið.

Það sópaði að Jönu hvert sem hún fór. Hún var fluggáfuð, minnug og orðheppin með afbrigðum. Hún kom ævinlega til dyranna eins og hún var klædd og sagði ávallt það sem henni bjó í brjósti - og var þá ekki að skafa utan af hlutunum.

Þegar ég var krakki bjó Jana á Bræðraborgarstíg. Oftar en ekki lagði hún leið sína til ömmu minnar á Hofsvallagötu til þess að spjalla og jafnvel taka í spil. Eitt sinn vorum við Guðmundur frændi minn , þá fimm og sex ára, gestkomandi hjá ömmu þegar Jönu ber að. Eftir að hafa gaukað að okkur góðgæti stakk hún upp á því að við spiluðum rommí. Gummi gerði sér lítið fyrir og vann hvert spilið á fætur öðru. Það fór illa í skapið á gömlu konunni sem hélt því fram að um væri að ræða hreina byrjendaheppni. Eftir þetta þorði ég aldrei aftur að spila við hana! Jönu fannst afar gaman að því að fylgjast með handbolta í sjónvarpinu og þá sérstaklega ef Íslendingar öttu kappi við erlend lið. Væri leikurinn spennandi hljóp henni oft kapp í kinn og hvatti þá sitt lið af jafn miklum móð og hún bölvaði andstæðingunum - og dómararnir fengu það óþvegið. Síðar játaði hún fyrir mér að hún væri hætt að prjóna þegar það væri handbolti í sjónvarpinu þar sem hún ætti það til að missa niður lykkjur eða ruglast í mynstrinu í öllum æsingnum.

Það var áfall fyrir þessa kjarnakonu að missa heilsuna og þurfa að flytja á hjúkrunarheimili. Slíkar stofnanir þóttu henni vera fyrir gamlingja og sjálfri fannst henni hún ekkert vera gömul þó hún væri komin yfir áttrætt. Þegar ég spurði Jönu eitt sinn hvort hún tæki þátt í félagsstarfinu eða danskvöldunum sem skipulögð voru fyrir heimilisfólkið hnussaði í henni og hún svaraði "Nei, ekki aldeilis, ég ætti nú ekki annað eftir en að horfa á þetta gamla lið hossast um eins og kartöflupoka." Eitt sinn rakst hún á gamlan kunningja sem hafði í æsku verið einn mesti kvennaljóminn í þeirra heimasveit. Hún gaf lítið út á það hvort gaman hefði verið að hitta manninn. Henni varð þó á orði að það væri ekki að sjá á fjandans manninum forna frægð, eins hrumur og tannlaus og hann var orðinn.

Jönu fannst lítið til ellinnar koma. Henni þótti sárt að missa bæði sjón og heyrn og fannst erfitt ad takast á við skerta krafta og tíð veikindi. Þegar ég kom einu sinni í heimsókn til hennar var hún afar illa fyrirkölluð og sagði þá " ...að það væri merkilegt hvernig almættið deildi þessu niður, þeir sem gengnir væru í barndóm hlypu um eins og lömb á vori, styngju af og það þyrfti að gera út leitarflokka til að leita að þessu á meðan þeir sem héldu enn andlegum kröftum þyrftu að leggjast í kör." Þessari kraftmiklu konu féll ekki að liggja fyrir aðgerðalaus.

Jana hafði yndi af tónlist og stundum tók ég fiðluna eða víóluna með í heimsókn og spilaði fyrir hana nokkur óskalög. Einu sinni bað hún mig að spila Hrísluna og lækinn og var afskaplega hneyksluð þegar ég sagðist ekki kunna lagið. Hún sagði að það yrði ég að læra því allir Íslendingar yrðu að kunna þessa skemmtilegu klámvísu. Þegar við hittumst síðast nú í haust spilaði ég fyrir hana nokkur lög og var Hríslan og lækurinn á meðal þeirra. Það kunni hún vel að meta. Þó mjög væri af henni dregið glitti eins og alltaf í svartan húmorinn. Tóti hafði komið með og eftir að hafa heilsað honum og virt hann fyrir sér af mikilli nákvæmni sagði Jana " Voðalega ert þú fallegur. Þú ættir bara að vera stelpa. Þú ert alltof fallegur fyrir hana frænku mína." Svo hló hún.

Mér fannst alltaf að konur eins og Jana hlytu að vera ódauðlegar. Í raun er það rétt. Hún lifir áfram í sínum ótalmörgu afkomendum, öðrum ættingjum, kunningjum og vinum. Fólk eins og hún frænka mín gleymist ekki svo glatt. Það er salt jarðar.

Blessuð sé minning Kristjönu Konkordíu Guðmundsdóttur.

Engin ummæli: