Illgirni og almenn mannvonska

mánudagur, nóvember 28, 2005

Kúkamál hin fyrri

Dagurinn í dag byrjaði vel. Ég vaknaði vel fyrir hádegi og eyddi heilum tveimur klukkutímum í að tala í símann yfir hafið - um ekki neitt. Að símtalinu loknu skreiddist ég værðarlega á fætur, náði mér í handklæði og lagði af stað niður stigann í átt að mygluðu sturtunni okkar.

OG SJÁ

Á miðju eldhúsgólfinu lá nokkuð sem ég hef hingað til ekki vanist að sjá innanhúss. Kötturinn Bezoek hafði greinilega gert sér lítið fyrir í morgunheimsókn sinni og drullað yfir hálft eldhúsgólfið. Köttinn var hins vegar hvergi að sjá. Ég lagði saman tvo og tvo. Einhver hafði hleypt kettinum inn, setið rólegur yfir morgunkaffinu meðan hann hægði sér á gólfið og svo farið í skólann án þess að þrífa upp ósómann. Einn er sá siður H-lendinga að þrífa aldrei upp eftir gæludýrin á almannafæri en maður hefði haldið að um eldhúsgólfið heima hjá þeim gilti öðru máli.

ÉG SÁ RAUTT.

Helvítis aumingjar og óþroskuðu krakkahálfvitar! Æpti ég út í eyðimörkina. Er ekki í lagi með ykkur? Getið þið ekki gert neitt sjálf? Eins og að þrífa upp mjólkurniðurgang eftir kött sem þið hleyptuð sjálf inn í stað þess að láta mér það eftir eins og allt annað sem miður fer í þessu húsi? Ég gat ekki horft upp á þennan viðbjóð á heimili mínu öllu lengur svo ég náði í klósettpappírsrúllu eina mikla og skóflaði drullunni upp. Svo fór ég í kalda sturtu - því það sauð á mér.

Þegar úr sturtunni var komið var ég enn bálreið. Ég tók upp símann og hringdi á línuna. Luis hafði ekki hleypt kettinum inn en hafði þó tekið eftir því sem hann hafði skilið eftir sig. Aðspurður hvers vegna hann hefði ekki gert neitt sagðist hann ekki hafa viljað þrífa annarra skít. Þá fannst honum betra að borða morgunmat í drullunni miðri. Hvorug stúlknanna vildi kannast við það að hafa hleypt kettinum inn. Drengurinn á loftinu kemur málinu ekki við því hann er ekki heima. Kötturinn hefur semsagt farið í gegnum hurðina, hvæsti ég. Þetta er greinilega mjög hæfileikaríkur köttur.

Nú finnst mér komið nóg. Héðan í frá mun ég ekki gera neitt í þessu húsi. Handy Girl er farin í verkfall og kemur ekki aftur. Stífluð niðurföll, gaskatlar sem ekki kviknar á, sprungin hjóladekk, sprungnar perur, bilaðar ryksugur, útbrunnin rafmagnsöryggi, þvottavélar sem standa á sér, pöddur í sturtunni, laust veggfóður, biluð húsgögn, brotin búsáhöld, ótengt internet, kúkur á eldhúsgólfinu... þau mega sjá um þetta sjálf héðan af. Megi þau mygla í eigin skít.


Víóluskrímslið - fullt af heift

Engin ummæli: