Illgirni og almenn mannvonska

mánudagur, nóvember 14, 2005

Múmíumús

Aðfaranótt laugardags hringdi síminn minn um hálfþrjúleytið um nóttina og vakti mig af værum blundi. Ég nennti ekki að svara enda alltof erfitt að opna augun hálfsofandi, hvað þá vekja röddina til lífs í slíku ástandi.

Morguninn eftir sá ég á símalingnum að Melanie vinkona mín hafði hringt. Það fannst mér undarlegt því Melanie er að öllu jöfnu rólyndisstúlka sem ekki hringir í fólk um miðjar nætur. Ég hugsaði sem svo að það hlyti eitthvað að hafa komið fyrir. Hún svaraði ekki símanum heima hjá sér og það fór um mig samviskubitshrollur. Skyldi hún hafa lent í vandræðum og hringt í mig í örvæntingu sinni? Ætli einhver hafi ráðist á hana eða kveikt í húsinu hennar? Nokkrum mínútum síðar náði ég í hana í gemsann. Er allt í lagi með þig? Spurði ég óttaslegin. "Nja..." svaraði Melanie, "...eiginlega ekki."

Það er mús í herberginu mínu.

Ég rétt náði að bæla niður stórt fliss. Melanie er nefnilega afskaplega hrædd við mýs og finnst ekkert fyndið við það. "Var mús í herberginu þínu?" spurði ég um leið og ég þakkaði almættinu fyrir að það var ekki eitthvad verra. "Já, og það sem verra er, er að ég held að það sé önnur dauð undir rúminu mínu. Ég gat ekki sofið þar í nótt svo ég hringdi um allt þar til ég hitti á einhvern vakandi og gisti þar í nótt. Geturðu nokkuð tékkað á þessu fyrir mig, ég höndla ekki að fara ein heim." Ég bað hana að hitta mig heima hjá henni hálftíma síðar.

Heima hjá Melanie virtist allt með kyrrum kjörum. Ég gerði mikla músarleit í herberginu hennar en fann ekki neitt á lífi. Þegar Melanie lyfti upp rúminu sínu var hins vegar annað uppi á teningnum. Undir rúminu var uppþornuð, marflöt músarklessa, sem baðaði út öllum öngum. Ég fór inn í eldhús, náði í hníf og skrapaði múmíaða músina undan rúminu. Greyið hafði ábyggilega verið dauð þarna í marga mánuði. Melanie spurði hvort þetta væri mús og í hreinskilni minni játaði ég því. Það fannst henni að vonum hræðilegt. Fáir yrðu kátir við það að frétta að þeir hefðu sofið á dauðri mús mánuðum saman.

Músin fór sína síðustu ferð beinustu leið í ruslið, ég skúraði síðustu hárleifarnar undan rúminu og huggaði Melanie sem gat ekki ákveðið hvort hún ætti að vera full viðbjóðs eða samviskubits yfir músarlíkinu. Svo tróðum við í sameiningu plastpokum og álpappír í öll músarleg göt í stúdentahúsinu hennar og límdum fyrir með límbandi. Við getum steypt upp í þau síðar.


Víóluskrímslið - útfararstjóri

Engin ummæli: