Illgirni og almenn mannvonska

sunnudagur, desember 24, 2006

Heim í heiðardalinn

Ég er komin heim. Við dr. Tót drösluðum því sem eftir var af búslóð minni í Hollandi með okkur í lest út á Schiphol í morgun. Á leiðinni var dr.Tót svo óheppinn að stíga í stærðarinnar hundaskít á einum lestarpallanna. Það fannst mér eftir á að hyggja afar táknrænt.

Fluginu seinkaði nokkuð vegna veðurs en allt fór þó vel að lokum. Ísland heilsaði með hressandi roki og rigningu. Þegar ég skrúfaði loks frá heitavatnskrananum í föðurhúsum vöknaði mér um augun af þjóðernisást. Svona verður maður meyr með aldrinum.

Á morgun eru jól. Það er besta mál.


Gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár!


Víóluskrímslið - sjáumst

sunnudagur, desember 17, 2006

Tilkynningar
´
Prófið er búið. Nú má ég kalla mig víóluleikara í símaskránni.

Þetta gekk alveg svona glimrandi vel og dómnefndin gaf mér einkunnina 8,5. Mesta lukku vakti sólóverkið hennar Önnu, nema hvað. Ég er viss um að það togaði mig upp um einn heilan. Auk þess tók nefndin þá ákvörðun að hleypa mér í fjarnám til mastersgráðu í fiðlukennslu. Ég verð því með annan fótinn í H-landi næstu tvö árin.

Fjölskyldan var mætt á svæðið mér til stuðnings og salurinn var fullur af vinum og kunningjum. Eftir tónleikana var haldið á vínkrá eina þar sem menn skemmtu sér fram eftir kvöldi og mér voru gefnir margir pakkar. Kærar þakkir, þið sem hugsuðuð til mín að heiman!

Í gær skruppum við svo til Amsterdam, fjölskyldan. Við fórum í bátsferð þar sem margt bar fyrir augu og amma hafði orð á því að Amsterdam væri allsérkennileg borg.
Í dag á Margrét litla systir afmæli og því fögnuðum við með því að skoða fláð lík og sundursagaða skrokka á sýningu um mannslíkamann. Kannski nokkuð til í þessu hjá ömmu.

Nú er þetta komið gott. Fjögur og hálft ár í útlöndum liðin og ég á leið heim eftir viku. Ég trúi þessu samt ekki fyrr en ég er komin með skírteinið í hendurnar.

Sjáumst um jólin, gott fólk!!


Víóluskrímslið - B. Mus

þriðjudagur, desember 12, 2006

Lífsstíll

Mikið held ég að það sé leiðinlegt að vera krónprinsessa. Sérstaklega held ég að það sé leiðinlegt að vera krónprinsessa Hollands. Fyrir nokkrum árum var Maxima, eiginkona hollenska krónprinsins, argentínsk fegurðardís á framabraut í viðskiptalífinu. Nú er hún gift leiðinlegasta manni norðan Alpafjalla og hefur ekkert að gera nema klippa á borða og eignast börn. Jú, og læra hollensku.

Þá held ég sé betra að vera úfið víóluskrímsli sem valsar barnlaust og frjálst um víðan völl án nokkurra skuldbindinga. Nema ef ske kynni nokkurra milljóna námslán á bakinu. Það er seinni tíma vandamál.


Satanísk jól


Svörtu jólin hafa haldið innreið sína víðar en á Íslandi. Hér í H-landi er allt vaðandi í jólaskrauti sem myndi betur sóma sér við svarta messu en á hátíð ljóss og friðar. Svona rusl kemur aldrei inn fyrir mínar dyr. Öss bara.


Víóluskrímslið - einfalt líf

sunnudagur, desember 10, 2006

Tilburg, borg óttans

Í gærkvöldi var blásið til veislu í stúdentahúsinu hans Gerbens litla bróður. Þar var margt um gelgreiddan gaurinn og fáklætt fljóðið, ölið rann í stríðum straumum og plötusnúður notaði gaseldavélina sem hillu fyrir vinylsafnið sitt.

Þar sem nú er nokkuð liðið á lokasprettinn (prófið er á föstudaginn næsta) rak ég bara rétt inn nefið en það var nóg til þess að ég hitti Leó fyrrum húsbróður minn, sem ég hef ekki séð í ár. Urðu þar fagnaðarfundir. Þar sem við stóðum þrjú í ganginum og spjölluðum æddi fram hjá okkur krullhærð stúlka sem virtist vera mikið niðri fyrir. Hún hvíslaði einhverju í eyrað á Gerben og æddi áfram út ganginn.

"Hvað var þetta?" fýsti okkur að vita. "Æ," sagði Gerben, "hann Ruud rændi hússjóðinn aftur og fór að kaupa dóp fyrir peninginn. Hún veit alveg að hann borgar alltaf til baka á endanum. Henni fannst bara svo ókurteislegt að hann skyldi ekki hafa spurt."

Víóluskrímslið - ungdómurinn nú til dags...

fimmtudagur, desember 07, 2006

Kvörtunarkór Helsinki

Hér http://www.glumbert.com/media/helsinkichoir má sjá Helsinkibúa syngja um allt það sem er að í Helsinki.

Ég hló upphátt að minnsta kosti þrisvar sinnum.


Víóluskrímslið
- gerir lífið skemmtilegra

miðvikudagur, desember 06, 2006

Jamm

Hjólið mitt, andsetni skranhaugurinn sem bilað hefur samviskusamlega í hverri viku síðan í september, gaf endanlega upp öndina í kvöld - nákvæmlega sjö tímum eftir að ég sótti það í viðgerð.

Aldrei aftur.

Á svona dögum er gott að eiga að ferfættan loðinn vin sem sefur á bringunni á manni og malar svo titringurinn finnst aftur í hryggjarsúlu.

Geðheilsunni er borgið.


Víóluskrímslið - á fæti

sunnudagur, desember 03, 2006

Hvalræði

Fyrir viku síðan stóð ég fyrir framan bekkinn minn í hljómsveitarstjórn og æfði með þeim afar sundurleita hjómsveitarútgáfu af "America" úr West Side Story. Kennarinn hafði valið þetta sem eitt af prófstykkjunum mínum að mér forspurðri og skemmti sér vel yfir einbeitingarsvipnum á trýninu á mér þar sem ég kepptist við að slá tvo og þrjá á víxl án þess að ruglast.

Þegar ég var búin að skælast í gegnum stykkið á nokkurn veginn skikkanlegan hátt stóð hann upp úr stólnum og ég hélt að hann ætlaði að fara að leiðbeina mér við stjórnunina. Aldeilis ekki.

"Ferð þú aftur til Íslands þegar þú útskrifast?" spurði herramaðurinn og horfði á mig h-lenskum vantrúaraugum. Ég sagði svo vera. "Færðu eitthvað að gera þar?" hélt hann áfram og h-lenska vantrúin færðist í aukana. Ég hélt nú það. "Ætlarðu þá að borða hvalkjöt þegar þú ert komin þangað?" spurði hann enn og bekkurinn tók andköf af æsingi. Ég stundi. Gat nú skeð. Já, ég sagðist líklega munu gera það enda þætti mér það gott. Bekkurinn gaf frá sér ógreinilegt hvískur. "Það finnst okkur hér svo sorglegt," sagði kennarinn og horfði á mig h-lenskum ásökunaraugum. "Það er bara algerlega ykkar mál," hvæsti ég á manninn. Bekkurinn tók andköf á ný, í þetta sinn öllu greinilegar. "Getum við kannski snúið okkur að efninu," hélt ég áfram og boraði gat á mannfjandann með augnaráðinu. Hann var ekki á þeim buxunum.

"Við Hollendingar skiljum bara ekki..." hélt hann áfram en náði ekki að klára setninguna því mér var nóg boðið. Þarna stóð karlinn bísperrtur, nýbúinn að slöngva framan í mig erfiðara prófstykki en nokkurt hinna h-lensku krakkakvikindanna mun þurfa að fást við og baunaði á mig fyrir hvalveiðar Íslendinga. Ég skrúfaði frá 0 á Kelvin röddinni minni og sagði að mér þætti þetta fáránlegt umræðuefni við þessar aðstæður og mæltist til þess að við höguðum okkur eins og atvinnumenn.

Bekkurinn snarþagnaði. Andrúmsloftið var þrungið spennu.

"Þið Íslendingar eruð að meðaltali ekkert sérlega vitlausir, er það" sagði kennarinn eftir nokkra þögn. Ég ákvað að hunsa manninn og taldi í. Mér til mikillar furðu kom hver einasti maður inn á einum.


Víóluskrímslið - hann fellir mig örugglega, karlfjandinn...

laugardagur, nóvember 25, 2006

Hamburg

Það var gaman í Hamburg nú í vikunni. Við Anngegret trylltum lýðinn á tónleikum okkar í AUDIMAX 1 í Tækniháskólanum í Hamburg , fengum tvö uppklöpp, lofsamlega blaðagagnrýni og hvaðeina.

Á tónleikunum prufukeyrði ég nýja sólóverkið hennar Önnu Þorvaldsdóttur fyrir opinbera frumflutninginn sem verður eftir mánuð. Viðtökurnar voru stórgóðar og menn héldu ekki vatni yfir því hvað Anna væri gott tónskáld.

Auk þessa skruppum við í siglingu um höfnina, í dýragarðinn og gerðum okkur ýmislegt annað til gamans. Svo varð ég lasin eins og alltaf gerist þegar ég fæ frí.

Æ mín auma önd.


Pútín

Ég ræddi rússnesk innanríkisstjórnmál við þarlendan bekkjarbróður minn á dögunum. Meðal annars fýsti mig að vita hvernig Pútín þætti öll sú gagnrýni sem fram hefur komið á hann og hans stjórnarhætti undanfarnar vikur, mánuði og ár.

Bekkjarbróðir minn yppti öxlum. "Blessuð vertu," sagði hann. "Pútín er skítsama um alla vestræna gagnrýni. Hann veit sem er að Rússland er algerlega sjálfbært. Evrópa og Bandaríkin mega tuða eins og þeim sýnist um mannréttindi, málfrelsi og lýðræði. Pútín hlustar með öðru eyranu, glottir - og skrúfar svo bara fyrir gasið."


H-land

Ég hata H-land.


Víóluskrímslið - 28 dagar í frelsið

mánudagur, nóvember 20, 2006

Igor

Hér í H-landi rignir eldi og brennisteini þessa dagana. Í veðrum sem þessum hef ég það fyrir sið að klæðast heiðgulri útihátíðaregnslá úr ruslapokaplasti sem ég keypti einhvern tímann á 100 krónur í Hagkaupum. Sláin er í stærð XXXL og nær því léttilega bæði utan um mig og víólukassann minn. Klædd þessum eðalfatnaði skælist ég á hjóldruslunni milli bæjarhluta og líkar vel.

Mér finnst ég vera afar virðuleg svona til fara. Víólukassinn myndar stórfínan herðakistil undir regnslánni og rauð ullarhúfan sem gægist undan gulri hettunni setur punktinn yfir I-ið. Þegar maður bætir svo við ískrinu í hjóltíkinni er engu líkara en þar sé sjálfur krypplingurinn Igor á ferð.

Skil ekki að fólki skuli ekki þykja þetta smart klæðnaður.


Víóluskrímslið - meiri snjó

laugardagur, nóvember 18, 2006

Fahren, fahren, fahren auf dem Autobahn

Síðasta vika var vika hins morgunfúla og viðskotailla víóluskrímslis. Það fer ekki vel með sálina að þurfa að fara á fætur klukkan sjö á hverjum morgni og vera stanslaust að til miðnættis.

Ástæða þessara anna voru m.a. tvö hljómsveitarverkefni, annað með verkum eftir Britten og Handel og hitt með nútímatónlist eftir ýmis tónskáld, þar á meðal nokkra nemendur skólans. Það tekur á taugarnar það læra tvö prógrömm samhliða, sérstaklega þegar maður vill heldur vera að æfa sig fyrir lokaprófið sem nálgast óðfluga. Auk þess fylgdu seinna verkefninu mikil ferðalög, þar á meðal til Munster í Þýskalandi. Þangað keyrðum við í gær, settum upp svið, spiluðum í klukkutíma, tókum sviðið niður aftur og keyrðum til baka. Ég fékk far með vörubílnum, sem ökumaðurinn náði upp í 140 km á klukkustund þrátt fyrir að vera með fullan bíl af slagverki og örþreyttum tónlistarnemum. Það tel ég vel af sér vikið.

Í dag lá ég í leti og eldaði mér fyrstu almennilegu máltíðina í viku. Ekki meiri samlokur í bili takk.

Á morgun fer ég til Eindhoven að spila á tónleikum með hollenskum áhugamannakór sem gæti komið sterklega til greina sem falskasti kór Evrópu norðan Alpafjalla. Þemað er Mozart noktúrnur og forsvarsmaður kórsins vildi að strengjaleikararnir yrðu með hvítt blúnduslifsi úr gömlum gardínum. Ég sagði nei.

Mig langar heim í frostið.


Víóluskrímslið - tæknileg mistök