Illgirni og almenn mannvonska

sunnudagur, desember 03, 2006

Hvalræði

Fyrir viku síðan stóð ég fyrir framan bekkinn minn í hljómsveitarstjórn og æfði með þeim afar sundurleita hjómsveitarútgáfu af "America" úr West Side Story. Kennarinn hafði valið þetta sem eitt af prófstykkjunum mínum að mér forspurðri og skemmti sér vel yfir einbeitingarsvipnum á trýninu á mér þar sem ég kepptist við að slá tvo og þrjá á víxl án þess að ruglast.

Þegar ég var búin að skælast í gegnum stykkið á nokkurn veginn skikkanlegan hátt stóð hann upp úr stólnum og ég hélt að hann ætlaði að fara að leiðbeina mér við stjórnunina. Aldeilis ekki.

"Ferð þú aftur til Íslands þegar þú útskrifast?" spurði herramaðurinn og horfði á mig h-lenskum vantrúaraugum. Ég sagði svo vera. "Færðu eitthvað að gera þar?" hélt hann áfram og h-lenska vantrúin færðist í aukana. Ég hélt nú það. "Ætlarðu þá að borða hvalkjöt þegar þú ert komin þangað?" spurði hann enn og bekkurinn tók andköf af æsingi. Ég stundi. Gat nú skeð. Já, ég sagðist líklega munu gera það enda þætti mér það gott. Bekkurinn gaf frá sér ógreinilegt hvískur. "Það finnst okkur hér svo sorglegt," sagði kennarinn og horfði á mig h-lenskum ásökunaraugum. "Það er bara algerlega ykkar mál," hvæsti ég á manninn. Bekkurinn tók andköf á ný, í þetta sinn öllu greinilegar. "Getum við kannski snúið okkur að efninu," hélt ég áfram og boraði gat á mannfjandann með augnaráðinu. Hann var ekki á þeim buxunum.

"Við Hollendingar skiljum bara ekki..." hélt hann áfram en náði ekki að klára setninguna því mér var nóg boðið. Þarna stóð karlinn bísperrtur, nýbúinn að slöngva framan í mig erfiðara prófstykki en nokkurt hinna h-lensku krakkakvikindanna mun þurfa að fást við og baunaði á mig fyrir hvalveiðar Íslendinga. Ég skrúfaði frá 0 á Kelvin röddinni minni og sagði að mér þætti þetta fáránlegt umræðuefni við þessar aðstæður og mæltist til þess að við höguðum okkur eins og atvinnumenn.

Bekkurinn snarþagnaði. Andrúmsloftið var þrungið spennu.

"Þið Íslendingar eruð að meðaltali ekkert sérlega vitlausir, er það" sagði kennarinn eftir nokkra þögn. Ég ákvað að hunsa manninn og taldi í. Mér til mikillar furðu kom hver einasti maður inn á einum.


Víóluskrímslið - hann fellir mig örugglega, karlfjandinn...

Engin ummæli: