Illgirni og almenn mannvonska

sunnudagur, desember 17, 2006

Tilkynningar
´
Prófið er búið. Nú má ég kalla mig víóluleikara í símaskránni.

Þetta gekk alveg svona glimrandi vel og dómnefndin gaf mér einkunnina 8,5. Mesta lukku vakti sólóverkið hennar Önnu, nema hvað. Ég er viss um að það togaði mig upp um einn heilan. Auk þess tók nefndin þá ákvörðun að hleypa mér í fjarnám til mastersgráðu í fiðlukennslu. Ég verð því með annan fótinn í H-landi næstu tvö árin.

Fjölskyldan var mætt á svæðið mér til stuðnings og salurinn var fullur af vinum og kunningjum. Eftir tónleikana var haldið á vínkrá eina þar sem menn skemmtu sér fram eftir kvöldi og mér voru gefnir margir pakkar. Kærar þakkir, þið sem hugsuðuð til mín að heiman!

Í gær skruppum við svo til Amsterdam, fjölskyldan. Við fórum í bátsferð þar sem margt bar fyrir augu og amma hafði orð á því að Amsterdam væri allsérkennileg borg.
Í dag á Margrét litla systir afmæli og því fögnuðum við með því að skoða fláð lík og sundursagaða skrokka á sýningu um mannslíkamann. Kannski nokkuð til í þessu hjá ömmu.

Nú er þetta komið gott. Fjögur og hálft ár í útlöndum liðin og ég á leið heim eftir viku. Ég trúi þessu samt ekki fyrr en ég er komin með skírteinið í hendurnar.

Sjáumst um jólin, gott fólk!!


Víóluskrímslið - B. Mus

Engin ummæli: