Illgirni og almenn mannvonska

sunnudagur, desember 10, 2006

Tilburg, borg óttans

Í gærkvöldi var blásið til veislu í stúdentahúsinu hans Gerbens litla bróður. Þar var margt um gelgreiddan gaurinn og fáklætt fljóðið, ölið rann í stríðum straumum og plötusnúður notaði gaseldavélina sem hillu fyrir vinylsafnið sitt.

Þar sem nú er nokkuð liðið á lokasprettinn (prófið er á föstudaginn næsta) rak ég bara rétt inn nefið en það var nóg til þess að ég hitti Leó fyrrum húsbróður minn, sem ég hef ekki séð í ár. Urðu þar fagnaðarfundir. Þar sem við stóðum þrjú í ganginum og spjölluðum æddi fram hjá okkur krullhærð stúlka sem virtist vera mikið niðri fyrir. Hún hvíslaði einhverju í eyrað á Gerben og æddi áfram út ganginn.

"Hvað var þetta?" fýsti okkur að vita. "Æ," sagði Gerben, "hann Ruud rændi hússjóðinn aftur og fór að kaupa dóp fyrir peninginn. Hún veit alveg að hann borgar alltaf til baka á endanum. Henni fannst bara svo ókurteislegt að hann skyldi ekki hafa spurt."

Víóluskrímslið - ungdómurinn nú til dags...

Engin ummæli: