Illgirni og almenn mannvonska

laugardagur, febrúar 11, 2006

Sund og sána

Spurt er

Hvað eiga Anna Hugadóttir, 26 ára nemi, grasekkja og víóluskrímsl og miðaldra fráskildir finnskir karlmenn með hormottur og varadekk sameiginlegt?

Þau fara í sund og sánu á laugardagskvöldum.

Ég þori að veðja slitnustu ullarsokkunum mínum að miðaldra einhleypu finnsku karlarnir fara allir beint á barinn eftir sundið, fá sér einn tvo þrjá fjóra eða jafnvel fimm bjóra og stara ofan í glösin án þess að segja neitt allt kvöldið. Í Finnlandi getur maður nefnilega farið á barinn án þess að tala við neinn. Jafnvel þó maður sé með vinum sínum. Það er mikil frelsun fólgin í því að þurfa ekki að segja neitt nema maður hafi eitthvað að segja.

Ég fór hins vegar ekki á barinn enda er ég að fara að spila Takemitsu og Sallinen á tónleikum í eftirmiðdaginn á morgun og þarf á öllum mínum heilasellum að halda. Þess vegna fór ég líka í sund í kvöld. Mér finnst auka á innblásturinn að skrúbba af mér skítinn og svitna í sánu umkringd nöktu kvenfólki af öllum stærðum og gerðum sem eru uppteknar við það sama. Lausar við allan tepruskap.


Víóluskrímslið - útvatnað

Engin ummæli: