Illgirni og almenn mannvonska

mánudagur, febrúar 13, 2006

Föðurland

Ég hef aldrei haldið neitt sérstaklega upp á síðar nærbuxur. Mér hefur alltaf fundist þær afar óaðlaðandi flíkur burtséð frá öllu notagildi. Ekki er langt síðan að ég rak upp ramakvein yfir því að ónefndur ungur maður heimtaði að fá að sofa í (götóttu) föðurlandi því honum væri svo kalt. Það væri kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þá sök að ég svaf í sama rúmi. Mér finnst ég alveg nógu heit fyrir okkur bæði.

Eftir komuna til Finnlands neyddist ég þó til að endurskoða afstöðu mína til föðurlandsins. Þegar úti er 20 stiga frost svo dögum skiptir fer maður ekki út nema klæða sig í mörg lög af fötum. Þar kemur föðurlandið til skjalanna enda ótækt að skilja fótleggina útundan. Eftir að hafa staðið ófáa morgna bíðandi eftir strætó og fundið minn eiginn andardrátt frjósa í nefinu á mér - án þess að vera kalt á leggjunum (þökk sé síðu nærunum) hef ég lært að meta föðurlandið að verðleikum. Mér finnst það enn jafn ljótt en það er allt annað mál.

Ég orðaði þessa hugarfarsbreytingu mína við sessunaut minn Pasa í hljómsveitinni í gær eftir að við höfðum spilað á tónleikum sem haldnir voru í óvenju kaldri kirkju. Hann sagðist hjartanlega sammála mér og meira en það. Föðurlandið væri hans uppáhaldsflík enda hlýtt, mjúkt og þægilegt. Einnig trúði hann mér fyrir því að bestu kvöldstundirnar ætti hann klæddur föðurlandinu og ullarbol með kaldan bjór í hönd, horfandi á íshokkí í sjónvarpinu.

Í framhaldi af þessu er ég að hugsa um að stofna vinasamtök til styrktar föðurlandinu. Ég veit allavega um tvo sem fegnir myndu vilja gerast félagar. Ég er meira að segja búin að finna nafn.

FÖÐURLANDSÁST


Víóluskrímslið - ystävänpäivä huomenna...voivoi

Engin ummæli: