Illgirni og almenn mannvonska

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Leyndardómurinn um horfnu fitukúluna

Fyrir nokkrum vikum síðan, þegar frostið náði ennþá 20 stigum á daginn og 25 á nóttunni, keypti ég fitukúlur í stórmarkaðnum til að gleðja smáfuglana í garðinum heima hjá fermetrunum 44. Fyrir þá sem ekki vita eru fitukúlur gerðar úr tólg sem búið er að blanda í alls kyns fræi og setja í net. Auðvelt er að hengja þessar kúlur í tré eða annars staðar þar sem fuglar himinsins gera óáreittir nartað í þær án þess að hafa áhyggjur af köttum eða smákrökkum í leit að ódýrri skemmtun. Ég var afskaplega ánægð með þessi kaup og skellti þegar við heimkomuna upp tveimur kúlum í stærsta tréð í garðinum.

Eftir nokkra daga var ég búin að koma mér upp dálitlum hópi vængjaðra fastagesta sem kunnu vel að meta fitukúlurnar. Það leið því ekki á löngu áður en ég þurfti að taka niður tóm netin og hengja nýjar kúlur upp í tré. Á morgnana athugaði ég spennt hvort ég sæi fugl við eina fitukúluna. Mér leið eins og krakka að kíkja í skóinn sinn á jólum.

Í gær þegar ég var á leiðinni í skólann tók ég eftir því að netin voru tóm. Ég frestaði því strætóferð um nokkrar mínútur og skrapp upp til að ná í nýjan skammt af kúlum. Ég hengdi þær í tréð og tók eftir því mér til ánægju að fuglarnir í trénu voru hættir að fljúga upp þegar þeir sáu mig koma. Ég fór svo í skólann í sólskinsskapi.

Þegar ég kom heim leit ég upp í tré eins og ég er vön. Ógn og skelfing! Önnur fitukúlan var HORFIN. Ég leitaði af mér allan grun í snjónum fyrir neðan tréð en fann ekki neitt. Ólíklegt fannst mér að smáfuglarnir hefðu étið heila kúlu á nokkrum klukkustundum og netið með. Það kom því aðeins eitt til greina. Einhver hefur STOLIÐ FITUKÚLUNNI.

Ég er enn að velta fyrir mér mögulegum ástæðum þess að fólk stelur illalyktandi tólgarbolta í neti sem fuglar hafa kroppað í. Kannski hefur einhver nágranninn áhyggjur af því að ég sé að hæna fugla að húsinu á þessum síðustu og verstu tímum fuglaflensu. Kannski hefur einhver stolið henni til að hengja upp á svölunum hjá sér. Mér finnst ólíklegt að einhver hafi stolið henni til að éta hana en þó getur maður aldrei útilokað neitt.

Ég held þó ótrauð mínu striki. Á meðan ég bý hér í Talontie skulu hanga fitukúlur í trjánum handa fiðurfénu. Ég er farin út í búð.


Víóluskrímslið - gleymum ekki smáfuglunum

Engin ummæli: