Illgirni og almenn mannvonska

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Olet mitä syöt*

Í finnskutímanum í kvöld lærði geðklofalegi skiptinemabekkurinn um finnskan mat og matarheiti á finnsku. Kennarinn notaði tækifærið og kenndi okkur ýmis spurnarorð í leiðinni. Tímanum lauk á því að hún gekk á röðina og spurði hvað menn borðuðu í morgunmat.

Lengi vel heyrðist ekkert nema hafragrautur, morgunkorn, ristað brauð, ávextir og múslí en þegar röðin kom að bandarísku hjúkrunarnemunum að lýsa sínum morgunverðarvenjum kom annað hljóð í strokkinn.

Eggjahræru, steiktar pylsur, beikon, pönnukökur, vöfflur með hlynsírópi og steikt eggjabrauð með sykri kvöddust þær borða í morgunmat á hverjum degi og líka vel.

Þó þær séu flestar með afbrigðum mjúkar og móðurlegar í vextinum á ég erfitt með að trúa þessu. Það að ná að útbúa þvílíkan morgunmat og koma honum ofanísig áður en skólinn byrjar klukkan átta er ekkert smá mál. Maður þyrfti að fara á fætur ekki seinna en sex.

Ég trúi því hreinlega ekki að fólk fórni dýrmætum svefni fyrir beikon að morgni dags.


Víóluskrímslið - svefnpurka


*Þú ert það sem þú borðar

Engin ummæli: