Illgirni og almenn mannvonska

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Ómennska í upphafi árs

Stundum hugsa ég mér að það sé eins gott að ég bý ekki á Íslandi lengur. Mér yrði aldrei neitt úr verki. Langar nætur veita kjörið tækifæri til 16 tíma samfellds svefns og óveður og kuldi ýta ekki undir mikla virkni almennt. Jólafríið varð sannkölluð letihátíð enda yndislegt skítaveður allan tímann. Fjölskylda og vinir kepptust um að fá að sjá framan í mann enda þurfa þau að fylla Önnukvótann fyrir árið. Ég át, svaf, las og fór í boð.

í stuttu máli gerði ég ekki neitt. Ég dröslaðist til að gera uppkast að heimaprófi í formfræði í morgun. Hins vegar á ég eftir að hreinskrifa það, æ já. Kontrapunkturinn fær að bíða til morguns. Ekki æfði ég mig svo heitið geti og mér líður eins og fingurnir á mér séu gerðir úr soðnu spaghettíi, svei mér þá. Því þarf ég að bretta upp ermarnar þegar komið verður til H-lands. Eigi dugir að liggja í leti og ómennsku - þó það sé það skemmtilegasta sem ég geri.

Nú tekur við mikill hasar sem standa mun sleitulaust í 6 mánuði. Mikið hlakka ég til. Ferðinni er heitið út á sunnudaginn. Adjö.


Víóluskrímslið - gleðilegt ár

Engin ummæli: