Berlin
Berlín er skemmtileg borg. Þar býr systir mín. Þangað til hún fer alfarin heim á þriðjudag.
Ég fékk útrás fyrir ofverndunartilhneigingar mínar í hennar garð með því að koma í heimsókn yfir helgina, elda með henni afmælismat, detta í það og hanga í búðum að kaupa föt á alla aðra en sjálfar okkur. Svo fer ég heim með amk. helminginn af yfirviktinni hennar enda höfum við heyrt ýmsar hryllingssögur af viðskiptum fátækra stúdenta við flugfélögin hér á svæðinu.
Það er gaman að vera á flakkinu með litlu systur. Okkur hefur farið fram í mannlegum samskiptum síðan við vorum litlar og lentum reglulega í blóðugum slagsmálum eða þar til Margrét var orðin sterkari en ég og ég farin að forðast líkamleg átök. Það hefði verið skemmtilegt að vita af henni á meginlandinu aðeins lengur. Auk þess er alltaf gaman að koma til Berlínar.
Í dag þurfum við að ganga frá lausum endum, pakka og gera fleira skemmtilegt. Við þurfum að eyða aðeins meiri peningum sem við eigum ekki og mæla okkur mót við hina og þessa vini og kunningja Margrétar. Svo komum við saman heim. Á þriðjudaginn.
Víóluskrímslið - stolt stóra systir
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli