Álfur út úr hól
Ekki alls fyrir löngu stóð ég við baðvaskinn í Hesperenzijstraat og burstaði tennurnar. Húsfélagi minn Annegret var við sömu iðju. Þetta gerist á hverju kvöldi að kalla og þætti ekki merkilegt til frásagnar nema fyrir það sem gerðist næst. Annegret spýtti í vaskinn, þurrkaði sér um munninn, leit á mig og sagði : "Má ég spyrja þig að dálitlu asnalegu?"
Ég hélt það nú. Ég er meistari í að svara asnalegum spurningum asnalega. Annegret varð hræðilega vandræðaleg og tvísteig. Merkilegt hvað fólk getur roðnað hratt. Ég var farin að búast við einhverju ógurlegu. Þangað til henni tókst að koma spurningunni út úr sér.
" Er það satt að Íslendingar trúi á álfa?! Systir mín segir að Íslendingar trúi á álfa og hanni vegi og húsbyggingar með tilliti til þess. Er það satt?"
Ég skellti upp úr. Já, sagði ég, það væri svo merkilegt að fullt af fólki trúði því að til væri fleira en maður gæti séð. Og þó margir tryðu því ekki beint vildu þeir hvorki játa því né neita að fleira væri til á himni og jörðu en heimspeki Hóratíusar segði til um. Ég hafði þurft að útskýra þetta alltasaman áður og þá höfðu hollenskir kollegar mínir hlegið mikið að vitleysunni í mér enda fantasíulaust fólk með afbrigðum. En Annegret fór ekki að hlæja. Hún vildi heyra meira.
Við settumst við eldhúsborðið og ég sagði henni frá öllu því sem ég veit um álfafræði. Álfhólsvegi þar á meðal. Enn var henni ekki hlátur í hug. Hún vildi vita hvernig álfar líta út. Ég rifjaði upp nokkrar þjóðsögur Jóns Árnasonar henni til upplýsingar. Álagablettir, munnmæli fuku yfir eldhúsborðið. "Trúið þið þessu öllusaman?" spurði hún forviða. Ég áttaði mig smám saman á því að henni fannst álfatrúin ekkert asnaleg. Þvert á móti.
Það rifjaðist upp fyrir mér spjall við heimspekinginn Twan sem eitt sinn bjó í sama húsi. Ég sagði honum þá frá því þegar hin hollensku skólasystkin mín höfðu gert grín að mér fyrir álfatal í Íslendingum. Hann velti þessu fyrir sér í nokkrar mínútur. Svo sagði hann : "Hollendingar stæra sig yfirleitt af því að vera raunsæir og með báða fætur á jörðinni. Hins vegar hefur mér alltaf þótt það skjóta skökku við að monta sig af skorti á ímyndunarafli. Með báða fætur á jörðinni kemst maður ekki langt."
Annegret þjáist ekki af skorti á ímyndunarafli. Ekki ég heldur. Enda er það svo miklu skemmtilegra. Hvort sem álfar eru til eður ei.
Legolas, wrrrrawww......
Víóluskrímslið - álfavænt með afbrigðum
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli