Illgirni og almenn mannvonska

þriðjudagur, september 19, 2006

Manndómsvígsla í Mexíkó

Loksins loksins, eftir tveggja vikna bið, hef ég tengst alnetinu á ný. Mun nú símareikningurinn fara lækkandi og er það vel. Til þess að fagna þessu langar mig að segja ykkur, lesendur góðir, magnaða sögu sem er höfð eftir mexíkóskum félaga mínum og er, þó ótrúlegt megi teljast, dagsönn.

Saga þessi gerist í Mexíkóborg á sólríkum sumardegi fyrir 20 árum síðan. Luis, aðalpersóna þessarar sögu, var þá 14 ára og nýbúinn að eignast sína fyrstu kærustu sem var árinu yngri. Samband þeirra einkenndist af göngu- og bíóferðum þar sem þau héldust feimnislega í hendur og sakleysislegum kveðjukossum fyrir framan útidyrnar hjá kærustunni.
Ekki leið á löngu áður en Luis var kynntur fyrir fjölskyldu kærustunnar en eins og gengur og gerist á þeim slóðum var hún ansi stór. Faðir stúlkunnar tók strax einstöku ástfóstri við drenginn og bauð honum að fylgja sér og sonum sínum á skeiðvöll Mexíkóborgar um helgar og veðja á hesta. Luis slóst í för með þeim nokkrum sinnum og undi vel við þessa karlmannlegu iðju.
Í fjórða skiptið sem Luis fékk að fylgja tengdó á skeiðvöllinn settist ung kona hjá þeim feðgum og lét heldur fleðulega. Tengdapabbi var orðinn góðglaður og tók henni fagnandi. Eftir nokkrar samningaviðræður varð úr að þau veðjuðu á sitt hvorn hestinn í næsta hlaupi. Ynni hestur stúlkunnar lofaði tengdó að bjóða henni upp á drykk. Ynni hinn hesturinn yrði stúlkan, hverrar starfi lá vart milli mála, að fara með öllum hópnum á hótelherbergi. Vart þarf að taka fram að hestur tengdaföðurins kom í mark fyrstur allra.
Þegar á hótelið var komið skipaði tengdapabbinn sonum sínum inn á baðherbergi. Nú ætti Luis litli að fá að fara fyrstur þar sem hann væri hreinn sveinn. Sjálfur tyllti hann sér á rúmstokkinn og vafði sér sígarettu. Luis vissi ekki hvaðan á hann stóð veðrið enda var reynsla hans á þessu sviði afar takmörkuð. En hvort sem það var fagmannlegum tökum stúlkunnar eða bjórnum sem tengdapabbi skipaði honum að skella í sig áður en átökin hæfust að þakka tókst honum ætlunarverkið undir dynjandi hvatningarópum tengdaföðurins. Svo var Luis litli rekinn inn á bað á meðan hinir brugðu sér á bak.
Að atinu loknu fóru synirnir út á gang þar sem jónan var látin ganga á meðan pabbinn gerði upp. Eitthvað gekk það öðruvísi en ætlað var því stúlkunni fannst hún hlunnfarin og hótaði að kalla til lögreglu. Eftir nokkurt þóf sættust þau þó á ásættanlegt verð og er hún úr sögunni.
Næst lá leiðin á veitingastað þar sem tengdafaðir Luisar bauð hersingunni upp á dýrindis málsverð til heiðurs hinum ný afsveinaða pilti. Með matnum fylgdu ýmsir göróttir drykkir og ekki leið á löngu áður en selskapurinn var orðinn ansi blekaður. Síðan fóru þeir á krá þar sem drukkið var og dansað. Þegar þar var komið fannst drengunum hann sannarlega hafa himin höndum tekið.
Klukkan var langt gengin í fimm að morgni þegar tengdó áttaði sig loks á því að þeir hefðu alls ekkert látið vita af sér heim. Luis viðraði áhyggjur sínar af viðbrögðum tengdamóðurinnar við pabbann. Sá þóttist þó hafa ráð undir rifi hverju enda væri hann sérfræðingur í að blíðka konur. Á leiðinni heim kallaði hann til hóp mariachi götusöngvara til þess að syngja konu sinni serenöðu. Auk þess reif hann upp nokkur ótótleg blóm í almenningsgarði einum.
Þrátt fyrir þetta var tengdamamma allt annað en blíð á svipinn en þegar hún kom fram á útitröppurnar klukkan sex að morgni í náttkjólnum með rúllurnar í hárinu og dóttur sína, kærustu Luisar, í felum fyrir aftan sig. Enda mætti henni ófögur sjón - eiginmaðurinn og synir hennar kófdrukknir, drulluskítugir og sjúskaðir, tengdasonurinn litlu skárri og falskir marichisöngvarar gólandi fyrir aftan þá. Eiginmaðurinn veifaði blómvendinum og lýsti yfir ódauðlegri ást sinni til konu sinnar sem blíðkaðist ekki við að nema síður væri. Full heilagri reiði dró hún mann sinn inn á þeim fáu hárstráum sem eftir voru á hans eðla kolli, skipaði mariachisöngvurunum að hypja sig og hellti svívirðingum yfir syni sína. Dóttir hennar horfði þögul á aðfarirnar. Það var það síðasta sem Luis sá til hennar því mamman skellti hurðinni beint á nefið á honum á meðan hún lét skammirnar dynja á eiginmanni sínum. Aldrei sá Luis stúlkuna aftur og síðan þá hefur hann ekki veðjað á hesta.
Og lýkur þar með sögunni.


Víóluskrímslið
- sagnaþulur

Engin ummæli: