Illgirni og almenn mannvonska

föstudagur, október 28, 2005

H-lenskar fréttir


Í morgun fór ég svo svakalega fýluferð í húsnæðismiðlun stúdenta hér í borg að það hálfa væri nóg. Verra var að ég þurfti að hjóla í rúman hálftíma til að komast þangað - á ónýta hjólinu mínu. Keðjan er farin að losna og detta af tannhjólinu þegar síst skyldi. Þegar ég þurfti að stoppa á heimleiðinni á einni fjölförnustu götu Tilburgar, skella hjólinu öfugu á gangstéttina og snúa keðjunni upp á helv... tannhjólið fylgdust nokkrir ungir menn með af athygli. Hafi þeir verið að bíða eftir því að ég gæfist upp grenjandi eins og H-lenskar kynsystur mínar iðka gjarnan við svipaðar aðstæður hef ég valdið þeim miklum vonbrigðum. Keðjan small á tannhjólið án erfiðleika og ég hjólaði í burtu, bölvandi hástöfum.


Um síðustu helgi fékk ég afar kærkomna heimsókn að heiman. Tóti tók sér eins dags frí frá því að skera fólk í sundur og sauma það saman aftur og kom í helgarfrí til H-lands, mér til mikillar gleði. Við gerðum okkur margt til dundurs og fórum meðal annars til borgarinnar Haarlem þar sem við fórum á safn um geðsjúkdóma í aldanna rás. Það gerist ekki rómantískara að okkar mati. Eftir að hafa skemmt okkur vel á safninu fengum við okkur göngutúr um borgina og fórum meðal annars að stóru myllunni sem er eitt af táknum borgarinnar. Í næsta húsi við mylluna býr Poepjes fjölskyldan. Það fannst mér óendanlega fyndið. Þar sem orðið "poep" þýðir kúkur og endingin "-jes" er smækkunarending, myndi orðið "poepjes" nefnilega útleggjast sem "litli skítur" á íslensku. H-lensk ættarnöfn koma mér sífellt á óvart.


Á æfingu í gær hallaði sessunautur minn sér að mér og spurði glettnislega hvort íslenskar konur hafi farið í verkfall síðastliðinn mánudag. Ég játti því, afar stolt. Já, dæsti hún, "Íslendingar eiga greinilega langt í land í jafnréttismálum. Það er annað hér í Hollandi. Hér þurfa konur ekki að grípa til slíkra aðgerða." Það sauð á mér. Því þó jafnrétti sé ekki komið á á Íslandi erum við þó komin ljósárum lengra en H-lendingar sem ætlast til að allar konur hætti að vinna þegar þær eignast börn. Ég leit á hana og sagði ofur rólega að jafnrétti ætti alls staðar langt í land og H-land væri þar engin undantekning. Hún yrti ekki á mig það sem eftir var æfingarinnar.

Stundum velti ég því fyrir mér hvort ég muni nokkru sinni geta aðlagast þessu landi svo vel sé.

Sem er skrítið finnst H-lendingum, því ég er ljóshærð, drekk bjór, borða svín og tala ekki arabisku.


Víóluskrímslið - lakkrís í hádegismat

Engin ummæli: