Illgirni og almenn mannvonska

fimmtudagur, október 13, 2005

Gróðurhúsaáhrif

Hér í H-landi er undarlegt ástand við lýði þessa dagana. 20 stiga hiti og sól upp á hvern dag. Feldurinn minn grotnar niður inni í skáp og ekkert útlit er fyrir að rykfallnir lopavettlingarnir verði teknir fram á næstunni. Stórfurðulegt.

Þetta góða veður er ágætis framlenging af sumrinu (sem ekkert var, samkvæmt bæjarblaðinu) og fyndið að enn sé hægt að rölta í skólann á peysunni þó komið sé langt fram í október. Sólin og hitinn hefur líka góð áhrif á mannfólkið sem er alls ekki eins pirrað og leiðinlegt og í meðalári. Nágrannarnir á móti eru búnir að taka klappstólana og risastóru ruslafötuna sína aftur fram og stilla upp fyrir framan dyrnar hjá sér. Þar situr öll fjölskyldan á kvöldin, nýtur veðursins, drekkur ódýran pissbjór og reykir vafasamar jurtir við undirleik André Hazes, Jantje Smit, Frans Bauer og fleiri Geirmunda þessa lands - eins og nú sé hásumar.

Sjálf er ég ánægðust með að geta þurrkað þvottinn minn úti. Fátt er indælla en að fara í örlítið raka flík sem angar af sæmilega fersku lofti og trjám í stað steikarbrælu og myglu. Samt er mér örlítið órótt. Það er kominn október og rétt áðan var ég að gera við hjólið mitt úti í garði á stuttermabolnum. Þetta er auðvitað ekki normalt á þessari breiddargráðu.

Ætli þetta sé bara lognið á undan storminum?


Víóluskrímslið - býr sig undir heimsendi

Engin ummæli: