Illgirni og almenn mannvonska

miðvikudagur, október 19, 2005

Þægilegt alls staðar


Síðasta vor, þegar ég var að tapa mér í riterðaskrifum og prófundirbúningi, sendi litla systir mér nokkra geisladiska til að létta mér lífið. Meðal þess er mátti finna á þessum skífum var hið magnaða lag Fjólublátt ljós við barinn með Þorgeiri Ástvaldssyni og Brunaliðinu - ef ég man rétt. Þetta lag var afar vinsælt þegar ég var lítið barn og ég mundi vel eftir því að hafa heyrt það í útvarpinu á árdögum Rásar 2 á fyrri hluta níunda áratugarins. Það var á sama tíma og pabbi þrjóskaðist enn við að raka sig reglulega, mamma átti geggjað árshátíðardress úr blágrænu velúri með axlapúðum og gullhnöppum og krakkarnir í stigaganginum söfnuðust inn í herbergi til stelpunnar á móti um helgar þegar hún bjó sig í partígallann. Mamma þessarar stelpu skúraði í Hollywood og kom stundum heim með marglitt og glitrandi kokkteilskraut til að gefa okkur krökkunum. Það fannst okkur magnað.

Á þessum tíma var blokkin okkar full af alls kyns óþjóðalýð sem olli því að fíkniefnalögreglan var með stöðuga vakt fyrir utan húsið og yfirheyrðu alla sem fóru inn og komu út. Allt þetta klikkaða fólk átti klikkuð börn sem komu heim þegar þau voru ekki í fangelsi og brutu allt og brömluðu, lentu í hnífabardögum og dreifðu blóði upp allan stigann.

Þá kostaði fimmkall í strætó, maður gat fengið töluvert af nammi fyrir stolinn tíkall og enn var hægt að kaupa gosdrykkinn Póló. Annað grænmeti en kartöflur, hvítkál og rófur var sjaldséð á borðum og pizzan hafði nýlega haldið innreið sína. Í sjónvarpinu voru Hemmi Gunn og Helga Möller með þáttinn Verum Viðbúin sem átti að kenna lyklabörnum að opna ekki dyrnar fyrir ókunnugum og fá sér sjálf kókópöffs eftir skóla. Lilli api lifði enn góðu lífi. Litla systir var ekki orðin nógu stór til að lemja mig. Herbert Guðmundsson var ekki farinn að selja ís. Kvöldið þegar Ása frænka passaði okkur og við borðuðum heilan Hómblestpakka á mann. Vetrarólympíuleikarnir í Calgary.

Magnað.

Allt þetta og margt fleira birtist mér fyrir hugskotssjónum við það eitt að hlusta á Fjólublátt ljós við barinn. Eins og þetta er nú hrikalegt lag.

Elegans, milljón manns
ekkert suð, stelpur og stuð,
fara á sveim, síðan heim,
rosa sánd, píur í nánd...

fyrirtaks veitingar, fjólublátt ljós við barinn...


Víóluskrímslið - glas og rör, stanslaust fjör

Engin ummæli: