Hætt, búin, farin
Þá er sumarsælan á enda, einu sinni enn. Eftir örfáa klukkutíma mun ég stíga upp í flugvél á leið til míns ástkæra H-lands, þar sem skólinn bíður. Ég keypti graflax handa kennaranum mínum sem ég ætla að gefa henni í upphafi fyrsta tímans á miðvikudaginn. Það mun vonandi milda áhrifin af algeru æfingaleysi síðustu 10 daga. Víólan var nefnilega í viðgerð.
Í H-landi á að vera 20 stiga hiti og heiðskírt á morgun og ég hugsa með tilhlökkun til lestarferðarinnar þar sem ég mun þurfa að skipta þrisvar um lest með allt mitt hafurtask. Fái ég ekki sæti hugsa ég að ég seilist í ullarpeysuna sem liggur efst í töskunni og troði henni inn á mig svo ég sýnist ólétt. Þá gengur vonandi betur að koma afturendanum fyrir á viðeigandi stað.
Í Húsi hinna töfrandi lita hafa átt sér stað breytingar undanfarið, Annegret er flutt og hurðin mín brotnaði af hjörunum við ótilgreindar aðstæður einhvern tíma í sumar. Miðað við ótrúlegan slóðaskap húseigandans er alls ekki víst að það sé búið að laga það. Ég bíð spennt eftir að sjá hvort það sé yfirhöfuð hurð á herberginu mínu... en hver þarf svosem svoleiðis.
Víóluskrímslið biður lesendur sína vel að lifa og hvetur þá til að fylgjast með ótrúlegum ævintýrum þess í vetur sem undanfarin 3 ár. Partíið er rétt að byrja.
Víóluskrímslið - sjáumst um jólin
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli