Það fer hver að verða síðastur
...í að hitta mig, bjóða mér í mat, bíltúr eða jafnvel í aðra tána. Ég tala nú ekki um í helgarferðir á exótíska staði, sbr. Sauðárkrók og Húnavelli.
Fyrir nokkrum dögum síðan festi ég kaup á flugmiða út til H-lands um alnetið. Brottför er áætluð þann 13. september. Sem fyrr áskil ég mér þann rétt að koma of seint í skólann. Akademíska korterið hefur teygst upp í rúma viku. Það deyr enginn úr því. Ekki ég að minnsta kosti.
Sumarið hefur verið annasamt eins og lög gera ráð fyrir. Minna hefur þó farið fyrir skemmtunum en ætlað var. Mörg ár eru liðin síðan ég valt síðast ofurölvi niður Laugaveginn og ekkert útlit er fyrir að það takist í bráð. Það hlýtur að teljast þroskamerki. Á hinn bóginn tókst mér að lóðsa enn einn útlendinginn um Guðs vors land, fara sjálf í tjaldferðalag í roki og rigningu, halda áfallahjálp Önnu opinni 24 tíma á sólarhring fyrir þá þurfandi, spila á tvennum tónleikum, éta á mig gat, fara á ættarmót á sandblásnum grunni gamla ættaróðalsins austur í Holtum, vaska heilum tíu sinnum upp í foreldrahúsum, standa næturvaktir með tilheyrandi hafragrautstilbúningi og þannig mætti lengi telja.
Það verður ekki slæmt að komast aftur í skólann og eiga einar þær skyldur yfir höfði sér að æfa sig tvisvar á dag, tvo tíma í senn.
Áhugasömum um vorn félagskap skal bent á að hægt er að panta tíma í síma 694-3592.
Víóluskrímslið - á síðasta snúningi
Illgirni og almenn mannvonska
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli